Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 18:55:12 (5486)

2002-03-04 18:55:12# 127. lþ. 86.7 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., SI (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[18:55]

Sigríður Ingvarsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Jóhanni Ársælssyni var tíðrætt um einkaréttinn til að nýta auðlindina í upphafi andsvara sinna. Ég vil bara minna á að þegar kvótakerfið var sett á upphaflega var verið að úthluta réttindum sem menn höfðu alltaf haft nema hvað sá réttur var takmarkaður. Síðan er búið að skerða ár frá ári þau réttindi sem menn höfðu upphaflega.

Hv. þm. segist ekki heldur málsvari þess að aukagjald verði sett á fyrir veiðiréttindin heldur verði svokölluð fyrningarleið farin. Ég spyr á móti: Verði fyrningarleið farin og veiðiréttindin boðin upp á uppboði eða aflaheimldirnar, er það ekki stór biti að kyngja fyrir útgerðina?