Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 20:59:11 (5501)

2002-03-04 20:59:11# 127. lþ. 86.7 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[20:59]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég virði það við hv. þm. að hann dregur ummæli sín til baka og biðst velvirðingar á þeim þannig að það er meðtekið af minni hálfu og engir eftirmálar verða af því.

En ég vil víkja að öðru atriði sem fram kom í máli hv. þm. Hann ræddi aðeins um frv. og það í því sem fjallar um auðlindagjald. Ef ég skildi hann rétt er hann andvígur því að taka upp það gjald sem í frv. er og mun vera um 3 kr. á hvert kíló við samþykkt frv. eða eftir tvö ár og fer upp í 5 kr. á kíló.

En ég minni á að í umsögn fjmrn. með þessu frv. segir um byggðakvótann, 1.500 tonnin, að miðað við meðalverð þorskígilda árið 2001 séu aflaverðmæti 1.500 lesta um 170 millj. kr. Þá er reiknað með að greiddar séu um 112 kr. á hvert veitt kíló. En hv. þm. vakti réttilega athygli á því að menn greiða allt upp í 160 kr. á hvert kíló og hagnast samt.