Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 21:03:25 (5504)

2002-03-04 21:03:25# 127. lþ. 86.7 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[21:03]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála hv. þm. um að það hefur gengið illa að ná upp fiskstofnunum með kvótakerfinu. Ég er ekki að segja að það mundi samt ganga betur með öðrum aðferðum. Ég hef nokkrum sinnum lýst því yfir í þessum ræðustóli að ég hef verið með í að gera út, bæði á frjálsum veiðum, með skrapdagakerfi, kvótakerfi, sóknardagakerfi og svo eingöngu kvótakerfi. Ef ég á, samkvæmt þeirri reynslu minni, að meta hvað mundi skila okkur mestu þegar upp er staðið þá held ég að þetta aflaúthlutunarkerfi sem við erum með í dag sé það besta. Svo ég líti á umgengnina um aflaheimildirnar þá er ekki nokkur spurning að umgengnin um aflann gjörbreyttist með kvótakerfinu. Við sem vorum á vertíðarsvæðum í gamla daga þekkjum það þegar aflinn barst á land á örskömmum tíma og ekki náðist að vinna hann. Þá varð þetta skreiðarmatur og lítil verðmæti fyrir þjóðina. Þessar miklu sveiflur í veiðinni sem urðu vegna þess að menn áttu bara daga urðu til þess að gengissveiflur urðu sambærilegar og erfiðleikar við rekstur samfélagsins miklir. Ég tel að með kvótakerfinu hafi náðst mikill stöðugleiki í efnahagslífinu sem við hefðum ekki náð annars.

En þetta kerfi er samt sem áður ekki fullkomið. Það má örugglega bæta það. Menn hafa fyrst og fremst gengið of nálægt stofnunum, það er vandamálið. Ég vona að menn finni að endingu einhverja lausn en það þarf trúlega að styrkja Hafrannsóknastofnun og sjávarrannsóknir miklu betur ef við eigum að ná tökum á þessu.