Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 21:05:35 (5505)

2002-03-04 21:05:35# 127. lþ. 86.7 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[21:05]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil benda hv. þm. Kristjáni Pálssyni á að hann fór hér með leigutölur úr Eyjafirði upp á 9 þús. tonn. Það sýnir nú hve erfitt er fyrir okkur þingmenn að fjalla um þessi mál. Ég þekki t.d. til Samherjasamstæðunnar og veit hvernig þau mál liggja. Það dæmi er þannig að það fyrirtæki er rekið á tveimur kennitölum og þar er því er ekki um neina kvótasölu sem heitið getur að ræða. Fyrirtækið er að selja kvóta fyrir 20 milljónir, sem eru smápeningar miðað við veltu félagsins upp á vel á annan tug milljarða. Við eigum náttúrlega að setja okkur inn í það hvernig málin hanga saman. Þannig er þetta varðandi þessa kvótatilfærslu á milli fyrirtækja og kemur ekki fram í tekjum til viðkomandi fyrirtækis. Eftir því sem mér er tjáð kappkosta þessir aðilar að hafa þetta nokkurn veginn á núlli þótt þeir séu að skipta út tegundum sín á milli.