Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 21:14:43 (5511)

2002-03-04 21:14:43# 127. lþ. 86.7 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[21:14]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Við erum hér að ræða frv. sem hæstv. sjútvrh. hefur lagt fram og það hlýtur að skoðast sem sáttaleið, alla vega hefur það verið kynnt þannig að þetta sé sáttaleið fyrir sjávarútveginn.

[21:15]

Ég vil við upphaf máls míns við þessa umræðu taka fram að ég lít svo á að kvótastjórn botnfiskveiða sé vafalítið vond aðferð til að skammta aðgang að blönduðum botnfiskveiðum. Aðferðin er því verri sem fleiri meðaflabotnfisktegundum, sem ekki er aðalmarkmið að veiða með tilteknum veiðarfærum, er blandað inn í fiskveiðistjórnina með kvótasetningu. Kvótakerfin eru viðráðanleg að mínu viti og geta jafnvel verið næsta drjúg til síns brúks við stjórn veiða þegar veiðin beinist að einni fisktegund, t.d. loðnu, síld eða kolmunna. Það skiptir hins vegar miklu máli þegar við erum að tala um kosti og galla við að stjórna fiskveiðum að menn þekki galla þeirra veiðarfæra sem notuð eru við veiðarnar. Það á m.a. við um torfufisk. Það er áríðandi að veiðarfærin eyðileggi ekki og skemmi aflann --- veiðarfærunum er ætlað að skila afla um borð til vinnslu.

Ég vil líka segja að kvótakerfið hefur ekki verndað lífríki sjávar neitt sérstaklega. Og það hefur ekki byggt upp fiskstofnana. Árangurinn af uppbyggingu botnfisksstofnanna sl. 18 ár er akkúrat enginn. Það vita jú allir sem hafa fylgst með þróun botnfiskveiðanna og fiskveiðum og störfum og skýrslum Hafrannsóknastofnunar í gegnum árin. Því miður held ég að þetta séu staðreyndir. Við höfum ekki náð neinum sýnilegum árangri við stjórn botnfiskveiðanna. Við erum með stýrikerfi þar sem við erum með algjörlega framseljanlegan kvóta og fyrri aðferð fylgja mjög margir gallar. Það reynir á hvað menn vilja koma með að landi upp í hina dýru kvóta sína, hina dýru kvótaleigu, og það reynir verulega á umgengnina.

Það er samt rétt að taka fram í þessu sambandi að lög voru nýverið sett sem að hluta til hafa verið ætluð til að taka á þessu vandamáli eins og meðaflareglan um að landa megi 5% af afla á tímabili eða vertíð eða yfir árið og tilkynna það utan kvóta. Þar segir að landa megi selbitnum fiski eða skemmdum úr veiðarfærum utan kvóta og undirmálsafla að hálfu utan kvóta. Á undanförnum missirum, eftir hina miklu umræðu sem hefur orðið um þetta kvótakerfi, brottkast og fleiri afleiðingar sem það hefur leitt yfir okkur, hefur verið tekið á hluta af þessu vandamáli og vonandi duga þau ráð til þess að minnka vandamálið. Ég er hins vegar alveg viss um að þau munu ekki eyða því.

Eftir stendur samt sem áður að við höfum ekki náð neinum sýnilegum árangri við að byggja upp botnfisksstofnana. Það er auðvitað mikið áhyggjumál að við skulum að langmestu leyti hafa stýrt fiskveiðunum þennan tíma með framseljanlegu aflakvótakerfi en stöndum svo ekki uppi með neinn árangur af þeirri stjórnun.

Ég mun eftir ýmsum leiðum víkja betur að göllum og kostum kvótakerfisins um leið og ég ræði það frv. sem hér er til umræðu. Mig langar aðeins að víkja að því að þetta kerfi er kallað ,,sátt í sjávarútvegi``, eða frv. til sátta í sjávarútvegi. Sáttin liggur þá í því að ákveðið veiðigjald er lagt á veiðarnar. Útfærslan á því er að mínu viti með ýmsum annmörkum fyrir utan það að í sjálfu sér hef ég ekki litið svo á að það væri neitt sérstakt markmið að vera með gjaldtöku í sjávarútvegi ef menn ætluðu ekki með neinum hætti að nota gjaldtökuna til að hafa áhrif, m.a. á stýringu veiðanna, stýringu þess hvernig menn gera út og hvernig aflinn tryggist á útgerðarflokka og hvernig hann eflir byggðir í landinu. Ég hef alltaf talið að nota mætti gjaldtöku og í því tilviki fyrningarleið til þess að hafa áhrif á það hvernig við stundum fiskveiðarnar og hvaða markmiðum við viljum ná í þessu sambandi, bæði með nýtingu grunnslóðar og tryggingu fyrir byggð í landinu.

Að þeim forsendum gefnum hefði ég alveg getað fallist á að einhver gjaldtaka væri notuð, og ég hef fallist á það með öðrum í stjórnarandstöðunni að til þess mætti nota fyrningarleið og stýrðar leiðir, m.a. í uppboði skipt eftir gerð útgerðar. Ég hef margsagt það og ætla að ítreka það hér í upphafi að ég álít að brýna nauðsyn beri til að skipta útgerðinni eða fiskveiðiflotanum upp í aðgreinda útgerðarflokka. Þessi nauðsyn er m.a. brýn miðað við þá gjaldtöku sem verið er að leggja til og þá aðferð sem á að nota við hana. Mun ég gera það að umræðuefni.

Mér sýnist það upplegg sem hér er á gjaldtökunni miða við afkomuna árið á undan en greitt árið á eftir. Það sem draga á frá skv. 23. greininni er reiknaður olíukostnaður, reiknaður annar rekstrarkostnaður og reiknaður launakostnaður. Hér eru sýnd dæmi um þetta. Síðan skal gjaldið greitt miðað við þær forsendur að ákveðinn afgangur hafi orðið í útgerðinni. Þá getur það mest orðið 9,5%, að vísu ekki fyrr en árið 2009, en ég geri ekki sérstakan ágreining um það hvernig þessi þrep eru sett upp. Ég geri hins vegar athugasemdir við að gjaldið skuli svona útfært úr því að menn eru að leggja þetta upp. Ég vil láta það koma fram í máli mínu þó að ég sé alls ekki sérstaklega að mæla með þessari gjaldtöku eins og hún er útfærð ef hún er eingöngu notuð til þess að tryggja kerfið í sessi. Í mínum huga eru íslenskir útgerðarmenn að gangast undir þessa gjaldtöku til að festa sér óbreytt kerfið, þeir eru að kaupa sér festu kerfisins.

En aftur að því hvernig útfærslan á þessari gjaldtöku er. Hún er byggð upp miðað við árið á undan og síðan er það sem er talið geta verið gjaldstofn fært yfir á gjalddaga árið á eftir, 1. september ef ég man rétt og í janúar. Síðan er þriðji gjalddaginn sennilega í apríl, er það ekki? Það sem ég vil benda á varðandi þessa útfærslu er það sem ég vék að í máli mínu í upphafi, þegar ekki er um neina útgerðarflokkaskiptingu að ræða á gjaldið að koma út á meðaltalshagnað sem var fundinn út árið á undan og lagður síðan á þorskígildisreikning árið á eftir. Nú hefur það iðulega skeð í sjávarútvegi okkar að afkoman árið á eftir hefur fallið harkalega. Þess vegna vil ég beina þeirri spurningu til hæstv. sjútvrh. hvort hann hafi ekki áhyggjur af því að þessi útfærsla á gjaldtökunni gæti komið illa út. Setjum upp eitthvert dæmi: Loðnuflotinn gæti lent í mjög slakri vertíð, ég tala ekki um ef saman færi slök vertíð og verulega lækkandi verð loðnuafurða, bæði lýsis og mjöls, og afkoman hjá loðnuflotanum væri bara afar döpur --- samt sem áður ætti þessi flotaeining að bera gjaldið sem væri fundið út árið á undan og lagt á úthlutuð þorskígildi árið á eftir.

Þó að ég hafi tekið þetta dæmi með loðnuflotann má alveg eins þess vegna færa þetta yfir á hluta af smábátaflotanum sem á að byrja að greiða gjald í september og svo aftur í janúar en lendir í því að haustið er afar erfitt til sjósóknar, aflabrögð léleg og þá kemur nákvæmlega sama staða upp og með loðnuflotann, að viðkomandi flotaeining --- ef ég skil þetta rétt, ég verð þá leiðréttur ef þetta er misskilningur --- lendir í því að eiga að fara að greiða gjald sem er miðað við árið á undan en er lagt á þorskígildin.

Þessu er öðruvísi farið þegar verið er að leggja gjald á landaðan afla eins og hér þarf að gera, t.d. varðandi krókabátana, þ.e. 23 daga bátana, því þar verða menn bara að leggja gjaldið á landaðan afla. Þar af leiðandi mun gjaldið endurspegla rauntekjur manna á viðkomandi tímabili. Það gerist þegar menn eru í sóknarstýrðu kerfi eins og 23 daga smábátakerfið er en það gerist ekki þegar reikna á gjaldið ofan á þorskígildin árið á eftir.

Ég held að ég skilji þetta rétt, ég fæ ekki annað út en að svona sé þetta hugsað. Það hefði kannski verið athugandi til þess að reyna að milda áhrifin að skoða með hvaða hætti --- og það verður kannski skoðað í sjútvn. --- menn ætla að mæta því ef það verður skyndilegur tekjubrestur í einu ákveðnu útgerðarformi. Hvernig ætla menn þá að mæta því? Mönnum getur ekki verið það áhugamál, þrátt fyrir þessa gjaldtöku, að setja þannig kerfi af stað að það hafi afgerandi áhrif á það að útgerðarmynstrið í einni atvinnugrein sé verr statt en ella, ekki síst ef um svona áföll eins og ég tók dæmi af er að ræða.

Þessu vildi ég vekja athygli á almennt þannig að menn staldri aðeins við þetta. Fari ég villur vegar og einhvers staðar kemur fram í frv. að þessu verði mætt vonast ég til þess að hæstv. sjútvrh. leiðrétti þetta en mér sýnist útfærslan vera svona. Það má vel hafa áhyggjur af því hvernig hún kemur út.

Síðan er hér í 1. gr., svo ég vaði úr einu í annað í þessu frv., vikið að því að afli sem veiddur er í rannsóknarskyni á vegum Hafrannsóknastofnunar einnar fellur ekki undir ákvæði kvótalaganna. Ég skil vel að við þurfum að setja svona ákvæði inn gagnvart Hafrannsóknastofnun en mér er spurn: Á að setja það sérstaklega í lög að eingöngu Hafrannsóknastofnun geti stundað rannsóknir á fiskstofnum undir þessum formerkjum?

Ég er ósammála því að búin sé til einkaeign á hafrannsóknum hér á landi með þessu lagi. Flestar rannsóknir sem stundaðar eru kalla á einhvers konar veiðar, tilraunaveiðar eða eitthvað, og afli fæst. Ég tel að þeir sem á annað borð fara út í rannsóknir og eru með fiskifræðimenntaða menn með sér og verkefni sem þeir geta sýnt fram á að eru hrein rannsóknaverkefni eigi að sitja við sama borð og Hafrannsóknastofnun. Annað gengur ekki upp í mínum huga. Ég mótmæli því eindregið að Hafrannsóknastofnun, þótt hún vissulega annist flestar rannsóknir hér við land, einni og sér sé markaður sá bás að geta stundað rannsóknir og þurfa ekki að hafa neinar áhyggjur af aflabrögðunum. Þetta held ég að þurfi að skoða.

[21:30]

Ég hef engar sérstakar athugasemdir við 2. gr. og 3. gr. Þarna er verið að gera breytingar sem eru eðlilegar miðað við það að menn séu að festa eða setja þetta kerfi inn eins og verið er að gera. Ég er hins vegar andvígur því eins og kom fram í upphafi máls míns að við skulum við heildarendurskoðun á lögunum um stjórn fiskveiða --- ef ég skil það svo að hér sé sjútvrh. að leggja til það sem hann álítur að geti verið í gildi a.m.k. til 2009 eins og þetta er útfært í frv., þó ég ætli að leyfa mér að vona að það verði ekki og hægt verði að lagfæra þessi lög eftir næstu kosningar og gera á þeim ýmsar breytingar, þó vissulega sé það svo að eftir því sem lengur er verið með þetta kerfi við stjórn fiskveiða, þá verður auðvitað örðugra og fara þarf varlegar í að breyta því.

Það er ekki markmið eins eða neins, hvort sem hann er hlynntur kvótakerfinu eða ekki með þessari stýriaðferð, að setja útgerðina hér á annan endann einn, tveir og þrír. Þó að menn vilji breytingar og vilji nálgast þetta út frá annarri hugsun en fest hefur í sessi með framseljanlegu kvótakerfi, þá tel ég að það verði að gerast með þeim hætti að meiri líkur séu fyrir því en minni að það skaði ekki atvinnureksturinn stórkostlega, enda hefur það ævinlega verið þannig í mínum huga að tekjur útgerðarinnar eigi fyrst og fremst að ráðast af fiskveiðum.

Þess vegna var það í mínum huga aldrei nauðsyn að láta útgerðina hafa sölurétt á aflahlutdeild eða aflamarki. Útgerðin þurfti aldrei annað en öruggan veiðirétt, vitandi einhverja sína framtíð í því, og auðvitað nýtingarrétt á því sem þeir veiddu. Hún þurfti aldrei leigu- og söluréttinn. Ég er alveg sannfærður um að við værum miklu betur staddir og miklu meiri sátt væri um stjórn fiskveiða í landinu ef við hefðum aldrei hleypt allri þessari verslun af stað. En um það erum við hæstv. sjútvrh. ábyggilega ósammála, því ég hef oft heyrt hann segja í þessum ræðustól að hann liti svo á að framsalið væri drifkraftur kerfisins. Ég er ekki á þeirri skoðun og tel að hér væri vel hægt að stunda arðbærar fiskveiðar, jafnvel undir kvótakerfi, án þess að hið frjálsa framsal væri þar inni.

Mig langar að gera að umræðuefni 4. gr. frv. sem kveður á um að í 9. gr. laganna komi nýjar málsgreinar. Þar er í fyrsta lagi talað um 12.000 lestirnar af óslægðum botnfiski í þorskígildum til að mæta áföllum sem fyrirsjáanleg eru vegna verulegra breytinga á aflamarki einstakra tegunda. Síðan er talað um að taka megi hugsanlega 1.500 lestir að höfðu samráði við Byggðastofnun til þess að ráðstafa óslægðum botnfiski í þorskígildum talið til skipa sem gerð eru út frá byggðarlögum sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi.

Ég fletti upp á athugasemdum um 4. gr., og þar segir, með leyfi forseta: ,,Í síðari málslið er lögð til sú breyting að ráðherra verði heimilt, að höfðu samráði við Byggðastofnun, að ráðstafa allt að 1.500 lestum af þessum 12.000 lestum til skipa sem gerð eru út frá byggðarlögum sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi.``

Mér finnst skorta á skýringar við þessa grein. Um hvers konar vanda er hér verið að tala? Er það vegna tilfærslu á aflamarki eða er það vegna tekjusamdráttar eða aflabrests eins og greininni er núna ætlað að mæta og hefur mætt m.a. á rækjusvæðum við landið? Eða er verið að leggja til eitthvað annað?