Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 21:35:06 (5512)

2002-03-04 21:35:06# 127. lþ. 86.7 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[21:35]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Þar sem hv. þm. hefur beint til mín spurningum, þá tel ég rétt að reyna að svara þeim strax.

Það er auðvitað rétt hjá honum að gjaldið er lagt á vegna afkomu liðins árs en á magn ársins sem veiðarnar standa yfir á. Það kemur til af því að ekki er hægt að leggja gjaldið á vegna áætlunar viðkomandi árs sem gjaldið er greitt af skattalegum ástæðum. Það má ekki framselja skattlagningarvaldið, það verður að byggja á tölulegum staðreyndum eða staðtölum og gjaldið verður að vera fyrirsjáanlegt þannig að sá sem greiðir gjaldið þarf að geta vitað fyrir fram hvað hann á að greiða hátt gjald.

Hins vegar tekur þetta að vissu leyti tillit til afkomu ársins vegna þess að það er magnbundið. Ef mikil minnkun er á úthlutun t.d. í loðnu þegar kemur fram á veturinn, þá verði úthlutunin ekki eins mikil og áætlað var. Og þá verður innheimt þeim mun lægra gjald vegna þess að það er minna sem verið er að úthluta. Magnið hefur auðvitað gríðarlega mikið að segja um afkomuna þó það hafi ekki allt að segja.

Ekki er tekið tillit til mismunandi útgerðarforma, enda eru þau afar fjölbreytileg. Á þá bara að taka tillit til tegundaveiða eða á líka að taka tillit til veiðarfæra, svæða eða þar fram eftir götunum? Það væri held ég að æra óstöðugan ef tekið væri tillit til allra þeirra atriða sem þar gætu komið til álita.

Varðandi það sem snýr að Hafrannsóknastofnuninni og rannsóknaveiða þeirra, þá er einungis verið að styrkja grunninn að þeirri framkvæmd sem hefur verið til þessa, það er ekkert verið að koma með neitt nýtt inn í þá framkvæmd eða þá umræðu.