Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 21:39:58 (5516)

2002-03-04 21:39:58# 127. lþ. 86.7 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., GE
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[21:39]

Gísli S. Einarsson:

Virðulegur forseti. Það er skelfilegt að þurfa að byrja ræðu sína á þessum orðum, að hluti þess sem situr eftir í heildina síðan núverandi lög nr. 38/1990 voru samþykkt er að stofnar allra eða flestra botnlægra tegunda virðast vera á undanhaldi. Þetta er slæmur dómur.

Hvað hefur verið að gerast? Heimiluð hefur verið notkun stórmöskva í þorskanetum og með þeirri aðferð hefur líklega verið drepinn allt of stór hluti hrygningarstofnsins. Leyft hefur verið að vera með stórvirk tæki í formi veiðarfæra og sem hafa að sögn straujað eða heflað stór svæði á veiðislóð og þannig raskað lífríkinu. Netaflotanum hefur verið hleypt upp í fjörur. Brottkast fisks er og hefur verið óhugnanlegt. Þetta, ásamt með mörgu öðru válegu, er fylgifiskur þess kerfis sem við höfum búið við.

Herra forseti. Halda menn að það frv. sem nú liggur fyrir um breytingar á þessum lögum sé á einhvern hátt til þess fallið að vernda fiskstofna eða breyta umgengni um auðlindina? Ég hef því miður komist að þeirri niðurstöðu með því að lesa frv. yfir og skoða það að það er ekki á neinn hátt til þess fallið að bæta úr þeim vanda sem við er að etja.

Ég ætla að fjalla aðeins um þetta mál sem verið er að leggja fram í þinginu. Í fyrsta lagi á þann hátt að það er dapurleg niðurstaða fyrir núverandi stjórnarflokka eftir allar þær væntingar sem gefnar höfðu verið um sættir um það hvernig aðgangi skuli stýrt að takmarkaðri auðlind sjávar og hve mikið á að greiða fyrir að nýta auðlindina. Málið er þannig að meiri hluti þjóðarinnar telur eðlilegt og viðurkennir að eðlilegt sé að þeir sem nýti sameiginlegar auðlindir greiði fyrir eðlilegt afgjald og þá geta menn farið að velta fyrir sér hvað er eðlilegt afgjald.

Ef unnt er að gera út með því að leigja til sín aflaheimildir, eins og hér var sagt af hv. þm. Kristjáni Pálssyni, hægt er að gera út með hagnaði með því að leigja til sín aflaheimildir á 160 kr. kílóið, hvað er þá óeðlilegt við að reyna að finna út eitthvert normalgjald sem væri t.d. 1/5 af þessu gjaldi, 1/5 af 160 krónunum sem hv. þm. Kristján Pálsson ræddi um og var í rauninni að hæla að hægt væri að gera út með því að leigja til sín þessar aflaheimildir. Segir það þá okkur ekki að þeir sem eru með gefins aflaheimildir hljóta að vera annaðhvort að stinga undan stórgróða, einhvers staðar er stórgróðinn falinn, eitthvað er farið með peningana, eða þá að þeir gera vitlaust út? Það hlýtur að vera þannig.

Það eru allir sammála um að greiða eigi eðlilegt gjald, meiri hluti þjóðarinnar telur að það beri að greiða fyrir afnot af auðlindinni. Af hverju er ég að þrugla um þetta? Vegna þess að hér er ég með skjal fyrir framan mig sem er gefið út í september 2000 og er álitsgerð með fylgiskjölum frá auðlindanefnd.

[21:45]

Með leyfi forseta ætla ég að rifja það upp:

,,Alþingi ályktar að kjósa níu manna nefnd sem hafi það hlutverk að fjalla um auðlindir sem eru eða kunna að verða þjóðareign, m.a. öll verðmæti í sjó og á hafsbotni innan efnahagslögsögu, svo og í almenningum, afréttum og öðrum óbyggðum löndum utan heimalanda, námur í jörð, orku í rennandi vatni og jarðhita. Nefndin skilgreini þessar auðlindir á skýran hátt og hvernig skuli með þær farið. Nefndin kanni einnig hvernig staðið skuli að gjaldtöku fyrir afnot af auðlindum í sameign þjóðarinnar, með hliðsjón af þeim gjöldum sem fyrir eru. Nefndin kanni möguleika á að nota auðlindagjald til að tryggja að afrakstur sameiginlegra auðlinda skili sér á réttmætan hátt til þeirra sem hagsmuna hafa að gæta.

Um verði að ræða hóflegt gjald sem varið verði til að standa undir rannsóknum og til að stuðla að vernd og sjálfbærri nýtingu auðlindanna og réttlátri skiptingu afrakstursins, m.a. til að styrkja byggð í landinu.``

Þá er komið að fyrstu spurningu, virðulegur forseti. Ég sé ekki hæstv. sjútvrh. og kannski væri æskilegt að hann væri hér. Ef hann heyrir til þá kannski kemur hann í ljós. Virðulegur forseti, ég spyr um hæstv. sjútvrh. Ég hef spurningar fram að færa og bið um að hann sé hér viðstaddur og tíminn sem fer í að bíða eftir honum verði dreginn frá.

(Forseti (HBl): Ég vænti þess að hv. þm. geti vikið að öðrum málefnum á meðan náð er í hæstv. sjútvrh.)

Ætlar hæstv. forseti að sjá til þess að hann verði hér á mínum ræðutíma? Ætlar hæstv. forseti að sjá til þess að sá tími sem fer í að bíða eftir hæstv. sjútvrh. verði dreginn frá?

(Forseti (HBl): Ég vænti að hv. þm. hafi heyrt það sem ég sagði. Ég óskaði eftir því að náð yrði í hæstv. sjútvrh. Hann virðist hafa verið hér í hliðarsal.)

Það er fínt, það er gott. Takk fyrir, hæstv. forseti.

Er þetta frv. í samræmi við þá stefnumörkun, hæstv. sjútvrh., sem sett var hér við skipan nefndarinnar? Svo er ekki. Ég sé að hæstv. sjútvrh. hneigir höfuðið. Svo er ekki og ég skal rekja það í skjótheitum með því að vitna í grg. á bls. 7. Í þessari ályktun segir, með leyfi forseta:

,,Um verði að ræða hóflegt gjald sem varið verði til að standa undir rannsóknum og til að stuðla að vernd og sjálfbærri nýtingu auðlindanna ...``.

Í frv. stendur hins vegar, með leyfi forseta:

,,Gangi frumvarp þetta eftir og veiðigjaldið skili þeim tekjum sem við er búist í lok aðlögunartímans þegar það er komið til fullra framkvæmda má gera ráð fyrir að það geti staðið undir 3/4 hlutum af núverandi rekstrarkostnaði Hafrannsóknastofnunarinnar að viðbættum þeim kostnaði sem hlýst af þeim auknu rannsóknum sem að framan greinir.``

Gjaldið stendur aðeins undir 3/4 í staðinn fyrir að hér er ályktað um að standa undir þeim kostnaði sem verður til vegna greinarinnar. Þannig að strax í upphafi vega er kominn innbyrðis árekstur. Þó að farið sé þessi ár aftur í tímann, þegar gjaldið á að vera að fullu komið á, 9,5%, þá vantar mikið á að það standi undir þeim kostnaði, ef að líkum lætur, sem skapast við rekstur greinarinnar.

Náttúruauðlindir og landréttindi sem ekki eru í einkaeign eru þjóðareign samkvæmt skilgreiningu laga. Löggjafar- og framkvæmdarvaldi er skylt að fara með forsjá og ráðstöfunarrétt auðlindanna í umboði þjóðarinnar.

Virðulegur forseti. Ég vitna aftur til álitsgerðar sem ég nefndi í upphafi máls míns. Á bls. 13, með leyfi forseta, hefur nefndin tekið tvær meginleiðir til skoðunar varðandi greiðslu fyrir afnot af auðlindinni. Fyrri leiðin er fyrningarleið sem byggist á því að allar aflahlutdeildir verði skertar árlega um fastan hundraðshluta en endurseldar á markaði með uppboði.

Síðari leiðin, nefnd veiðigjaldsleið, felst hins vegar í beinni gjaldtöku ásamt ákvæðum um breytingar á aflahlutdeildum sem krefjist ákveðins lágmarksaðdraganda.

Hvað er ég að fara með því að vitna í þetta? Ég er að sýna fram á að önnur leiðin hefur verið valin. Mér hugnast sú leið ekki og ég hygg að það sé sennilega meiri hluti gegn þessu á Alþingi ef grannt er skoðað. Náttúruauðlindir í þjóðareign má ekki selja eða láta varanlega af hendi til einstaklinga eða lögaðila. Hvað er að gerast í þessu kvótakerfi? Það er búið að afhenda varanlega, þó að það sé bannað samkvæmt lögum, aflaheimildir til ákveðinna aðila.

Það sem við viljum er að heimilt sé að veita afnot eða hagnýtingu á auðlindum og réttindum gegn gjaldi tímabundið þó svo að því megi breyta með fyrirvara eftir því sem nánar yrði ákveðið með lögum. Ég held að slík heimild njóti verndar sem óbein eignarréttindi.

Ég hygg að það geti allir verið sammála um að það beri að nýta auðlindir þjóðarinnar á sem hagkvæmastan hátt, að arði skuli varið til þess vernda auðlindirnar og svo til hagsældar fyrir þjóðina að öðru leyti. Mín skoðun er sú, eins og ég kom rækilega að hér áðan, að þeir sem nýti auðlind, hver sem hún er, eigi að standa undir þeim kostnaði sem hlýst af rekstri þeirrar greinar sem um er að ræða í hverju tilviki. Ég hef frá upphafi verið þeirrar skoðunar að það gjald sem lagt er á verði að lágmarki það hátt að það standi undir þeim kostnaði sem hlýst af atvinnugreininni. Með þessu móti ættu aðilar að vera öruggir um sína stöðu. Á þessum grundvelli væru lögin síðan sett.

Ef litið er á niðurstöður endurskoðunarnefndar og auðlindanefndar, það eru tvær af þeim mörgu nefndum sem hafa fjallað um sjávarútvegsmálin á undanförnum árum má sjá að það er ekki alveg samhljómur í áliti þessara nefnda. Meiri hluti endurskoðunarnefndarinnar er alla vega ekki sömu skoðunar og auðlindanefnd varðandi mikilvægi þess að réttindi séu skýrð. Þess vegna held ég að það sé brotalöm í þessu máli í heild. Það er slæmt því að grundvöllur þess að báðir geti unað við sinn hlut, þjóðin og þeir sem nýta auðlindirnar, er að þeim séu ljós réttindi og skyldur sem afnotunum fylgja, alla vega þeim sem nýta auðlindirnar.

Ef við veltum fyrir okkur áliti auðlindanefndar þar sem samkeppnisforsendur eru fyrir hendi er talað um að bjóða afnotarétt þjóðareigna út. Ef ekki þá eigi að semja um gjald með hliðsjón af mögulegum arði af auðlindinni. Ég held að það sé rétt að minna á það varðandi fiskveiðar að nefndin benti á að hún væri sammála um tvær meginleiðir, þ.e. fyrningarleið og veiðigjaldsleið. Það kom fram eftir því sem ég kemst næst með því að skoða álit hennar.

Í umfjöllun um leiðirnar tvær í áliti auðlindanefndar kemur fram að hluti nefndarmanna --- þetta höfum verið að deila um og ræða frá því að álitin voru lögð fram --- að hluti nefndarmanna taldi aðeins aðra leiðina ásættanlega. Síðan er lagt hér fram, virðulegur forseti, þetta frv., sáttafrumvarp sem gert er án þess að ræða við þá aðila sem voru ósáttir. Þeim er bara gerð upp skoðun ef því er að skipta.

Ég er mörgum sinnum búinn að segja, virðulegur forseti, á liðnum árum að nauðsynlegt sé að ná sátt um nýtingu auðlindarinnar í hafinu. Ég hef líka sagt að það sé þörf fyrir öll þau útgerðarmunstur sem í gangi eru við nýtingu fiskimiðanna. Það verður að vera möguleiki á reglulegri endurnýjun í atvinnugreininni og sá möguleiki er alltaf að þrengjast. Ég tel að menn verði að komast til sátta varðandi smábátana sem núna hafa 0,67% aflaheimilda í þorski, þ.e. sá floti smábáta sem rær eftir dagakerfi. Ég tel að þessir bátar þurfi allt að 4% af úthlutuðum afla til að hafa raunverulegan rekstrargrundvöll. Þá er ég að tala um þorsk.

Svo ég fari yfir það virðist mér aðeins hægt að fallast á 1. gr., þó með þeim litlu breytingum varðandi þau skip sem tekin verði til rannsókna, að heimilt verði að láta rannsóknir sem fara fram af öðrum skipum en frá Hafrannsóknastofnun eftir þessari grein og allur veiddur afli sem komi á slík skip falli ekki undir ákvæði þessara laga.

Það er ótrúlegt hvað upp kemur í tengslum við þessi mál. Ef maður skoðar hvernig veiðiheimildir í aflamarks- og þorskaflahámarkskerfinu á Vestfjörðum og Austfjörðum eru sem hlutfall heildarveiðiheimilda á hverjum tíma má sjá, á grafi sem ég hef hér undir höndum, að árið 1992 voru samtals á Vestfjörðum og Austfjörðum 31% þorskígilda. Hlutfallið hjá þessum byggðum er hins vegar komið niður í 26,3% í þorskígildum árið 1992. Árið 2000 er þorskurinn kominn niður í 23,5% og heildarþorskígildin komin niður í 22%. Hlutfall þorskígildis hjá þessum byggðum hefur lækkað um 6,5% og þetta eru byggðirnar sem eiga helst í vök að verjast. Þetta segir okkur hvernig þetta kerfi hefur í raun unnið gegn byggðunum og það verð ég að segja að það þykir mér mjög slæmt.

Það er líka hægt að fara yfir úthlutað aflamark eftir heimahöfnum skipa, umreiknað í þorskígildistonn veiðiársins 2000--2001 skipt eftir landshlutum, fara aftur í samanburðinn og fara aftur til ársins 1992. Þá höfðu Vestfirðir 59.064 þorskígildistonn. Núna árið 2000--2001 hafa Vestfirðir með 26.496 tonn, það er meira en helmingsminnkun. Ég veit að ég er ekki að segja neitt nýtt en þetta sýnir okkur hvernig kerfið hefur unnið gegn byggðunum.

Ég get tekið Austurland fyrir. Austurland hafði 1992 í úthlutuðu aflamarki 53.790 tonn í þorskígildi en 2000--2001 voru þar 41.575 tonn. Þetta er vísindalega reiknað út og farið nákvæmlega yfir. Þetta sýnir okkur hvað hefur verið að gerast í þessu kerfi og mér þykir það mjög miður.

Í lokin vil ég spyrja um það sem er í 4. gr. frv. og velta fyrir mér því að 1.500 tonn af þeim 12 þús. tonnum sem þar eru heimiluð til ráðherra eru ætluð Byggðastofnun til úthlutunar. Hvað með þessi 10.500? Til hvers ætlar hæstv. ráðherra að nota þessar heimildir? Er þetta vegna einhverra sérstakra þarfa sem ráðherra veit um? Er þetta vegna smábáta, vegna loðnuflotans, vegna frystitogaranna, vegna dagróðrabátanna eða vegna 50--200 tonna bátanna sem var gamli vertíðarflotinn?

Ég bara spyr: Hvar kreppir helst að og hvar sýnist hæstv. ráðherra nauðsyn á að grípa inn í? Veit hann um það? Ef ekki horfir þannig þá eru þessi 10.500 tonn mikill afli.