Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 22:05:03 (5520)

2002-03-04 22:05:03# 127. lþ. 86.7 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[22:05]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það vekur undrun mína að hv. þm. Gísli S. Einarsson skuli ganga svo hart fram og tala svo um að þetta aflagjald eða þessi auðlindaskattur sem hér er lagt til að settur verði inn í fiskveiðistjórnina sé ekki nógu hár. Hann vill hafa hann hærri.

Því langar mig til að spyrja hv. þm.: Hver skyldi nú borga þennan skatt? Hvað með þessa atvinnugrein, sjávarútveginn, hvað verður nú um það sem hún framleiðir og gerir? Er það ekki 100% flutt út? Hvað er þessi grein að gera? Er hún ekki í samkeppni við alla matvælaframleiðslu heimsins? Og ef menn leggja á þessa grein sérstakan skatt umfram aðrar atvinnugreinar, hver skyldi þá borga hann? Skyldi það nú ekki vera, herra forseti, að það væru engir aðrir en það fólk sem vinnur við þá atvinnugrein, fiskverkafólk og sjómenn? Og honum þykir ekki nóg að gert. Það þarf að hækka gjaldið. Það á að láta þetta fólk borga meira. Honum finnst það liggja þannig fyrir. Sjávarútvegurinn er svo blómlegur, þorpin í kringum landið eru svo blómleg að það þarf endilega að leggja sérstakan skatt á þessa atvinnugrein eina. Hvernig má vera, herra forseti, að menn geti verið slegnir slíkri blindu?