Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 22:12:21 (5524)

2002-03-04 22:12:21# 127. lþ. 86.7 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[22:12]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við ræðum frv. til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða. Þetta mál er margrætt og þau rök sem við höfum heyrt hér í dag hafa öll meira eða minna verið sögð áður. Megininntakið í þessu frv. og það sem ég ætla að ræða er eignarhaldið, hvernig eigi að fara með þá eign sem myndast þegar aðgangur að auðlindinni er takmarkaður. Og eins og ég sagði í þingflokki mínum þá bíð ég eftir að láta sannfærast.

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða um gallað kerfi, eins og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson kom inn á, sem hefur ekki skilað þeim árangri í veiðistjórn sem við væntum. Ég ætla heldur ekki að ræða um byggðakvótann sem hér er talað um. Ég hef miklar efasemdir um hann. Þetta minnir mig á þegar Egil Skallagrímsson langaði mikið til að dreifa silfrinu og láta menn slást um það. Nákvæmlega það gerist þegar á að útdeila og gefa peninga eða verðmæti. Ég er á móti því að einhver aðili sé settur í þá stöðu að dreifa og gefa verðmæti.

Herra forseti. Þrjár leiðir eru til þess að taka á eignarhaldinu. Fyrsta leiðin er sú að taka upp veiðigjald eins og hér er lagt til. Það rennur til ríkisins og er háð áætlun um hagnað, þ.e. ekki hagnaði einstakra útgerða heldur heildarhagnaði greinarinnar. Það má líta á þetta þannig að ríkið ætli í heildarríkisútgerð. Ríkið ætlar í heildarríkisútgerð og búið er að reikna út hver hagnaðurinn er. Það er búið að reikna út kostnaðinn, laun og annað slíkt og síðan leigir það útgerðunum aðgang að þessari ríkisútgerð fyrir 90,5%. Þannig má líta á þetta. Þetta gjald, 9,5%, mun, eins og hér kom fram áðan, að sjálfsögðu hækka vegna þess að það er eðli skatta að þeir hækka með tímanum.

[22:15]

Önnur leiðin er svokölluð fyrningarleið þar sem ákveðinn hluti af aflaheimildum er boðinn upp. Sú hugmynd sem rædd var í nefndinni frægu fólst í því að ríkið byði upp, þ.e. að hagnaðurinn eða afgjaldið rynni til ríkisins. Báðar þessar tillögur ganga út frá því að ríkið fái arð af auðlindinni, segja má að ríkið sé að slá eign sinni á auðlindina með báðum þessum tillögum. Veiðigjaldið innheimtir ekki annar en sá sem hefur yfir veiðinni að segja (Gripið fram í.) og þar af leiðandi er þetta frv. á ákveðinn hátt ríkisvæðing kvótans.

Svo hefur verið bent á enn eina leið og það er mín leið sem fólst í því að dreifa veiðiheimildum á alla þjóðina. Hún er líka markaðsvæðing eins og fyrningarleiðin en munurinn er sá að afgjaldið af kvótanum rennur ekki til ríkisins heldur til einstaklinganna sem búa í landinu, til þjóðarinnar, en það er líka markaðsvæðing.

Herra forseti. Hver er munurinn á þessum leiðum? Ef mín leið er farin, þá er kvótinn einstaklinganna sem búa í landinu. Varðandi hinar báðar, hvort sem er veiðigjaldsleiðin eða fyrningarleiðin, þá yrði hann eign ríkisins og bætist við þá ríkisvæðingu sem hefur átt sér stað á undanförnum árum. Ég nefni ríkisvæðingu hálendisins, þ.e. þjóðlendurnar, þar sem ríkið sló eign sinni á 40% af landinu, gífurlegar fjárfestingar ríkisfyrirtækja eins og Landsvirkjunar fyrir 5--10 milljarða á ári, sem er líka ríkisvæðing og ég nefni gífurlega aukningu á ógreiddum lífeyrisskuldbindingum upp á fleiri tugi eða hundruð milljarða sem er ekkert annað en ríkisvæðing, það er skuld skattgreiðenda framtíðarinnar. Á móti þessu stendur afskaplega fátækleg einkavæðing.

Herra forseti. Hver er munurinn á veiðigjaldi og fyrningu eða markaðsvæðingu? Munurinn er sá að veiðigjaldið er lagt á greinina óháð getu hennar. Hún er ekki spurð að því sjálf hvað hún geti greitt heldur eru það embættismenn eða alþingismenn sem ákveða hvað hún eigi að geta greitt. Hins vegar er markaðsvæðingin, hvort sem það er uppboð af hendi ríkisins eða dreifing kvótans til þjóðarinnar, sem þýðir að útgerðin býður í kvótann það sem hún getur greitt. Þeir sem geta veitt ódýrast safna til sín veiðiheimildum. Ég hygg að með því að skoða reikninga stórútgerðarfyrirtækja sem skila upp undir 20 kr. á hvert kíló í hagnað og eiga samt allan kvótann, leigja ekkert til sín, þær útgerðir geta ekki borgað meira en 20--30 kr. á kíló.

Ég hygg að margur útgerðarmaðurinn á Vestfjörðum, á smábátum og trillum, væri nú glaður að fá að kaupa kvótann á 20--30 kr. og allur kvóti mundi sennilega fara þangað, enda hugsa ég að þeir veiði hvað ódýrast.

Með fyrningarleiðinni og með því að dreifa kvótanum um alla þjóðina, þá mundi verð á árlegum veiðiheimildum lækka mjög hratt, en það er núna yfir 120 kr. á kíló.

Herra forseti. Ég er með spurningar til hæstv. sjútvrh., en ég veit ekki hvort hann heyrir spurningar mínar.

(Forseti (HBl): Hann hefur góða heyrn.)

Allt í lagi.

Fyrsta spurningin: Er veiðigjaldið skattskylt? Það hef ég ekki nægilega skilið í þessari umræðu, hvort útgerðin geti dregið veiðigjaldið frá skatti eins og annan kostnað, eða er þetta eins og oft áður að t.d. eignarskattur er ekki frádráttarbær frá skatti?

Önnur spurning: Er gott að auka tekjur ríkissjóðs, er það betra en að auka tekjur einstaklinga? Þá er ég að velta fyrir mér hvort sé betra að fara fyrningarleiðina og/eða veiðigjaldsleiðina á móti því að dreifa kvótanum á þjóðina.

Þriðja spurning: Er betra að hafa fastan skatt sem er óháður getu fyrirtækja en markaðsvætt gjald og fyrirtækin ákveði sjálf hvað þau geta borgað mikið? Er betra að stýra þessu ofan frá, frá grænum skrifborðum í Reykjavík, hvað útgerðin eigi að greiða eða hvort hún ákveði það sjálf miðað við getu?

Síðasta spurningin: Er eðlilegt að vera með sjómannaafslátt, sem hæstv. fjmrh. sagði að væri styrkur til útgerðar, á sama tíma og við erum bæði að takmarka veiðar útgerðarinnar --- við höfum minnkað veiðarnar en styrkurinn að sjálfsögðu eykur getuna til að veiða --- og leggja veiðigjald á þá sömu útgerð? Væri ekki ráð að fella niður sjómannaafsláttinn og minnka þá þetta veiðigjald sem því nemur?