Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 22:22:05 (5526)

2002-03-04 22:22:05# 127. lþ. 86.7 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[22:22]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. sjútvrh. fyrir svörin.

Það er dálítið athyglisvert að hann er á öndverðri skoðun við hæstv. fjmrh. varðandi eðli sjómannaafsláttar sem styrks til útgerðar. En það kom fram í svari hæstv. fjmrh. að sjómannaafsláttur væri styrkur til útgerðar. (Gripið fram í: Nei, það passar nú ekki.)

Síðan sagði hæstv. ráðherra að það yrði meiri stöðugleiki með veiðigjaldinu. Ég er ósammála því vegna þess að veiðigjaldið er ákveðið ofan frá og verður hækkað eins mikið og útgerðin þolir með tímanum. Þá er það alveg óháð getu útgerðarinnar til að greiða þetta gjald. Hins vegar mundi markaðsvæðing á kvótanum verða til þess að útgerðin byði í kvótann það sem hún gæti greitt á hverjum tíma. Það er miklu meiri stöðugleiki. Ef illa gengur á mörkuðum erlendis eða erfitt er að ná í fiskinn og dýrt, þá mundi verðið á kvótanum lækka. Útgerðin býður að sjálfsögðu ekki meira í kvótann heldur en hún getur veitt fyrir. Ég er því ekki sammála þessari niðurstöðu.

Síðan svaraði hæstv. ráðherra ekki því hvort gott sé að auka tekjur ríkissjóðs á móti því að auka tekjur einstaklinga sem minn ágæti flokkur stefnir nú alltaf að.