Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 22:50:02 (5533)

2002-03-04 22:50:02# 127. lþ. 86.7 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[22:50]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Ef farin hefði verið sú leið sem hv. þm. var að nefna, að breyta fyrst stjórnarskránni og leggja síðan fram frv. um aðra hvora leiðina sem auðlindanefndin var tilbúin í, þá værum við bara ekki komin þetta langt í þessu ferli. Það þarf að kjósa einu sinni á milli þess sem stjórnarskrárbreytingar eru gerðar. Stjórnarskrárbreytingin hefur ekki verið lögð til og þar af leiðandi væri það ekki mögulegt. Við værum því ekki komin þetta langt.

Ef ég man rétt þá var ein ástæðan fyrir því að Alþýðuflokkurinn, sem hv. þm. var einu sinni þingmaður fyrir, vildi ekki samþykkja auðlindanefndina sú að áhyggjur voru af því að málið mundi tefjast, nefndinni voru ekki sett nein tímaskilyrði og þar af leiðandi mundi málið tefjast og ekki komast nægilega snemma til þings. Nú vill þm. hv. enn tefja málið.

Varðandi það að þetta sé ekki veiðigjaldsleiðin sem nefndin lagði til og hann vitnaði til bls. 44. Þar er leiðin nefnd og sagt að hana megi taka upp ,,samfara þessu`` --- þetta má sjá í seinasta paragrafi kaflans á bls. 44. Þessi tillaga er ekki merkilegri í augum auðlindanefndarinnar sjálfrar en svo að hennar er ekki getið í samantektinni yfir helstu niðurstöður nefndarinnar og ekki getið þegar veiðigjaldsleiðin (Gripið fram í.) er kynnt í samantekt nefndarinnar.

Þessi leið er auk þess algjörlega tilgangslaus því þeir sem á að taka frá geta tekið þátt í uppboðinu og keypt það til baka. Þannig verður engin hreyfing á neinum aflaheimildum með þessari leið og hrein sýndarmennska að leggja til eitthvað eins og þetta, sérstaklega, herra forseti, þar sem um er að ræða frjálst framsal. Þar af leiðandi ætti að vera jafn aðgangur með því ekki síður en með einhverju svona tilbúnu uppboði.