Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 22:58:50 (5537)

2002-03-04 22:58:50# 127. lþ. 86.7 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[22:58]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er að reyna að átta mig á þessum skrýtnu umræðum.

Mig langar til að spyrja hv. þm. hvort hann muni þetta ekki eins og ég og skilji þetta ekki eins og ég? Það var 1984 sem kvótarnir voru fyrst settir á. Þeir voru settir á á grundvelli veiðireynslu. Það gekk nú á ýmsu. Ég get vel tekið undir að í þeim úthlutunum hafi verið mörg valdníðslan og margir hafi kannski fengið óverðskuldaða úthlutun o.s.frv. en allir stjórnmálaflokkar stóðu að þessu ár eftir ár og alls konar ríkisstjórnir. Það stóðu allir að því að láta útgerðina hafa þetta á grundvelli reynslu, enda hef ég engan heyrt geta þess hvernig þetta hefði verið hægt öðruvísi.

Hefðu menn viljað selja útgerðunum þetta gátu þeir náttúrlega gert það í upphafi. En þá þurfti að húrra stórkostlega niður genginu til að láta útgerðina kaupa sinn eigin rétt aftur. Ég fæ ekki skilið hvað menn eru núna að tala um, 18 árum seinna, að þeir ætli að gera við þessar veiðiheimildir. Ég tel það ekki skipta neinu máli í sjálfu sér hver eigi veiðiheimildirnar. Aðalatriðið er að þær nýtist samfélaginu (Gripið fram í.) og af því á þjóðfélagið að hafa áhyggjur. Þannig stöndum við á þjóðarréttinum að við stöndum þannig að fiskveiðistjórnarkerfinu að það skili árangri.

Því miður hefur kerfið sem við höfum notað í 18 ár við þorskveiðarnar ekki skilað okkur neinum árangri. Við erum bara að veiða helminginn af því sem við veiddum áður af bolfiskinum. Það er vandamál Vestmannaeyja. Vandamál Vestmannaeyja er bara eitt, þ.e. að aðeins helmingurinn af þeim afla kemur að landi sem kom þar áður. Ég hélt að þetta væri það sem við þyrftum að hafa áhyggjur af, sem við þyrftum að tala um, leggja okkur niður við og leggja okkur fram um að finna lausn á --- ekki hvort við ætlum að þjóðnýta þetta eða skattleggja sjómenn og fiskverkafólk.