Framkvæmd búvörulaga og staða sauðfjárbænda

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 13:51:52 (5544)

2002-03-05 13:51:52# 127. lþ. 87.94 fundur 376#B framkvæmd búvörulaga og staða sauðfjárbænda# (umræður utan dagskrár), DrH
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[13:51]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Samkvæmt uppgjöri Hagþjónustu landbúnaðarins var afkoma sauðfjárbænda árið 1999 lakari en nokkru sinni fyrr og enn hefur afkoman farið versnandi eftir því sem fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Sauðfjárbúum með virku greiðslumarki hefur fækkað um 208 á árunum 1995--2000 en þrátt fyrir það jókst framleiðsla á kindakjöti um rúmlega 1.600 tonn og birgðir eru enn að aukast.

Það er staðreynd að kjörum sauðfjárbænda hefur hrakað ár frá ári. Meðaltekjur sauðfjárbónda á árinu 2000 með 300 fjár eru um 1.050 þús. kr. Afkoma sauðfjárbúa sýnir að hún nægir ekki til að greiða eigendum laun í samræmi við vinnuframlag og þau launakjör sem verðlagsnefnd gerir ráð fyrir. Framleiðsla hefur aukist þrátt fyrir að innanlandsmarkaður hafi ekki stækkað og hefur í raun dregist saman.

Þegar útflutningur bregst leggst útflutningsgjald á það kjöt sem ekki selst á innanlandsmarkaði, sem er mjög óhagstætt fyrir greinina. Allt útlit er fyrir að útflutningsskyldan verði a.m.k. 25% næsta haust og bændur fá mjög lágt skilaverð á útfluttu kjöti eða um 160 kr. á kíló sem nægir ekki fyrir breytilegum kostnaði við framleiðsluna.

Gjaldþrot Goða var mikið áfall og kemur illa niður á bændum en fjöldi sauðfjárbænda tapar að meðaltali milli 200 og 300 þús. kr. Markmiðum samningsins var ekki náð. Er ekki rétt að staldra við og athuga hvað hefur farið úrskeiðis? Það er viðurkennt að þegar vanda ber að höndum í einstökum greinum atvinnulífsins er forsjárhyggjan þekkt leið til úrlausnar. Að mínu áliti hefur miðstýring og ofstjórn hins opinbera gert illt verra. Hefði ekki verið betra að gefa heimildir til að framselja greiðslumark strax í upphafi og þannig gefið færi á hagræðingu eins og hefur orðið í mjólkurframleiðslunni?

Herra forseti. Ég vil frelsi til athafna fyrir íslenska bændur og hafna helsi miðstýringar og forsjárhyggju.