Framkvæmd búvörulaga og staða sauðfjárbænda

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 13:55:54 (5546)

2002-03-05 13:55:54# 127. lþ. 87.94 fundur 376#B framkvæmd búvörulaga og staða sauðfjárbænda# (umræður utan dagskrár), JB
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[13:55]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Á árunum 1995--2000 hefur sauðfjárbúum fækkað um 208. Á sama tíma hefur verð til bænda lækkað um 6%. En þrátt fyrir meinta hagræðingu í slátrun, kjötvinnslu og smásölu hefur verð til neytenda samt hækkað um 17,5% á sama tíma á föstu verðlagi.

Það dylst því engum að hér er eitthvað alvarlegt að. Talað er um fákeppni og sjálftökurétt stórfyrirtækja á að ná afsláttum frá framleiðendum og afurðasölum. Talað er um einokunarstöðu í sölu á vörunni til neytenda.

Ég leyfi mér að spyrja: Hvernig hyggjast stjórnvöld bregðast við þeirri þróun til einokunar sem virðist vinna svo berlega gegn hagsmunum bæði bænda og neytenda?

Enginn efast um hollustu þessarar náttúruvænu afurðar. En vandinn er sá að tekjur þeirra sem þennan atvinnuveg stunda eru allt of lágar og á því verður að taka raunhæfum og föstum tökum. Sauðfjárræktin þarf að búa við einfaldar gæðakröfur sem mótast fyrst og fremst af óskum neytenda og kröfum um sjálfbæra nýtingu auðlindanna og markaðurinn fyrir þessar afurðir er fyrst og fremst hér innan lands. Dilkakjötið okkar á að vera hluti þess sem ferðamenn upplifa og njóta og þar þarf aukna markaðssókn. Vöruþróunar- og markaðsstarf á því fyrst og fremst að beinast að innanlandsmarkaðnum og mín tilfinning sem neytanda er sú að þar mætti vinna miklu meira, betra og markvissara starf.

Herra forseti. Það mega ekki verða örlög íslenskrar sauðfjárræktar að hún kafni í reglugerðaverki og skriffinnsku að kröfu Evrópusambandsins og að henni verði gert að standa undir auknu, stórauknu umfangi eftirlitsiðnaðarins, eins og nú gæti stefnt í. Herra forseti. Ég vildi ekki vera sá landbúnaðarráðherra sem bæri ábyrgð á því ferli.