Framkvæmd búvörulaga og staða sauðfjárbænda

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 13:57:55 (5547)

2002-03-05 13:57:55# 127. lþ. 87.94 fundur 376#B framkvæmd búvörulaga og staða sauðfjárbænda# (umræður utan dagskrár), KHG
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[13:57]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Það er rétt að undirstrika að samningurinn sem gerður var 1995 og hér er verið að taka út var samkomulag milli ríkisvaldsins annars vegar og Bændasamtakanna hins vegar, sameiginleg niðurstaða beggja aðila, sem menn féllust á, sem fólst í því að ríkisvaldið lagði til miklar fjárhæðir inn í atvinnugreinina. Og vilji menn frelsi þá eru menn væntanlega að hafna því að ríkisvaldið leggi fram fé til stuðnings þeirri atvinnugrein. (Gripið fram í: Alls ekki.)

Ég vil segja, herra forseti, að það sem mér finnst kannski athyglisverðast í skýrslunni er hve staða kindakjötsins er að mörgu leyti sterk. Þrátt fyrir að verð á kindakjöti eða smásöluverð hafi hækkað um 17,5% þá hefur sala aukist um 4%. Það segir manni að íslenskir neytendur eru mjög tryggir kindakjötinu og það gefur vonir um að hægt sé að sækja aukna markaðshlutdeild á nýjan leik fyrir kindakjötið með markvissu markaðsátaki innan lands þrátt fyrir mikla samkeppni annarra atvinnugreina sem eru að framleiða kjöt.

Ég bendi á að þrátt fyrir að framleiðni aukist mjög verulega í alifuglarækt og svínarækt þá er kindakjötsneysla, kíló per íbúa, nánast hin sama í lok samningstímans og í upphafi. Þrátt fyrir mjög harða samkeppni á vöru sem verður ódýrari með árunum á þessum samningstíma þá heldur kindakjötið sínum hlut að þessu leytinu til. Það gefur íslenskum bændum sóknarfæri sem ég tel að menn eigi að nýta sér og leggja verulega rækt við markaðsátak innan lands. Auk þess á ríkisvaldið að mínu viti að halda áfram því starfi sem verið hefur á undanförnum árum, að leggja fé og vinnu í atvinnuuppbyggingu til sjávar og sveita sem bændur geta hagnýtt sér til framfærslu og búsetu á jörðum sínum.