Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 14:11:18 (5553)

2002-03-05 14:11:18# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[14:11]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Við tökum til við umræðu um þetta mál þar sem frá var horfið í gærkvöldi. Það er heldur fjölmennara í salnum núna en þá og fleiri líklega sem ætla að taka til máls enda nógur tími og full ástæða til að ræða þetta mál vandlega í þinginu. Hér eru á ferðinni að mínu viti helstu pólitísku tíðindi þessa kjörtímabils en það er sú ákvörðun stjórnarflokkanna að ætla að svíkja loforðin sem þeir gáfu fyrir síðustu kosningar um að ná sátt í sjávarútvegsmálum.

Sú niðurstaða sem hér er komin fram hefur ekki hlotið sérstaklega blíðar viðtökur neins staðar. Nánast allir sem hafa rætt þetta mál hafa verið á móti því. LÍÚ vill þetta ekki, sjómannasamtökin, fiskvinnslan og ég veit eiginlega ekki hverjir hafa lýst yfir stuðningi við það. Þeir hafa ekki mætt í þennan þingsal og þeir hafa ekki mætt í ræðustól nema hæstv. sjútvrh. og hv. þm. Kristján Pálsson. Ég held að þeir séu einu formælendur þessa fyrirbrigðis sem hér liggur fyrir þinginu sem hafa mætt í ræðustól til að vitna með og hafa uppi stuðning við þetta frv. En ráðherrann segir að þetta sé til marks um það að frv. sé gott, þetta sé nefnilega sáttafrv. Þetta lýsi best því sem sátt sé um, að það sé besta niðurstaðan ef allir eru á móti henni. Það þætti svolítið skrýtin röksemdafærsla ef ekki væri verið að tala um þetta mál. Ég segi ekki meira.

Auðvitað er þetta ekki gott frv. Það snýst í raunveruleikanum um að viðhalda óbreyttu ástandi, reyna að halda í það að útgerðarmenn eigi áfram fiskinn í sjónum og megi versla með hann að vild sinni. Það tekur sem sagt ekki á deilumálinu sem þjóðinni var lofað að skyldi tekið á af stjórnarherrunum. Það á að reyna að festa þetta kerfi í sessi og breiða yfir nafn og númer, halda því fram að nú sé farið að taka gjald fyrir þetta og það eigi þá að vera nóg til þess að menn séu sáttir við allt saman. Þjóðin hefur að mínu viti aldrei verið á þeirri skoðun að það væri eitthvert sérstakt keppikefli að hafa sem mesta fjármuni af þeim sem standa í útgerð á Íslandi. Það hefur hins vegar verið stór meiri hluti fyrir því á Íslandi að ekki væri vansalaust að það væri ekki jafnræði til að nýta þá auðlind sem hér er til umræðu. Það er sú krafa sem var uppi. Það var ekki krafa uppi um það að búa til eitthvert gjald eða breyta nöfnum á einhverjum reikningum frá hinu opinbera til útgerðarmanna. Það var krafa um að tekið yrði á aðaldeilumálinu sem var þetta sem ég er að lýsa.

[14:15]

Sjálfstfl. styður þetta mál eins og það liggur hér fyrir þó að nánast hver einasti þingmaður Sjálfstfl. hafi marglýst því yfir að hann sé á móti gjaldi eins og því sem þarna er verið að leggja til að verði lagt á. Samt sem áður ætlar Sjálfstfl. að styðja málið. Til hvers? Til þess að reyna að festa í sessi eignarhald útgerðarmanna á veiðiheimildunum. Tilgangurinn getur ekki verið annar. Og Framsfl. lufsast með í þessu máli. Helmingurinn hans er algerlega sammála Sjálfstfl. um að vilja viðhalda þessu eignarhaldi. Hinn helmingurinn vill fara aðra leið. Niðurstaðan er sú að það á að samþykkja þetta. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson lýsti því í umræðunum hér í gær að svo sem væri hægt að fara aðra leið á eftir þessari. Það er sjálfsagt það sem á að hugga einhverja framsóknarmenn sem vilja ekki fara þessa leið, þ.e. að hægt sé að beygja af henni síðar og fara inn á aðra. Ég fyrir mitt leyti sé ekki nokkurn tilgang með því að láta þetta mál fara í gegn á Alþingi. Mér finnst það algjörlega ástæðulaust. Hvers vegna ætti hv. Alþingi að samþykkja þessa niðurstöðu sem enginn vill og leysir ekki aðaldeilumálið? Það er ekki hægt að sjá nein rök fyrir slíkum vinnubrögðum. Þau hafa ekki verið tínd hér fram.

Ég tel hins vegar að sjálfstæðismenn geti sumir hverjir kannski sæmilega við þetta unað vegna þess að þeir standa í þeirri meiningu að með þessu séu þeir að festa eignarhaldið í sessi og sjá til þess að einkaeignarréttur á veiðiheimildunum verði staðfestur til frambúðar. Því trúa þeir. Hv. þm. Kristján Pálsson kom hér upp og dásamaði þetta kerfi og talaði um að þess væru dæmi að menn græddu á því jafnvel að leigja sér veiðiheimildir á 150--160 kr. og það væri bara gott. En hverju lýsir það? Það lýsir því að auðvitað er verið að innheimta fullt gjald fyrir aðgang að auðlindinni. Það gera þeir sem selja aðgang að henni og þeir selja þann aðgang á fullu verði.

Ég verð satt að segja að nefna annan hv. þm., þ.e. hv. þm. Einar Odd Kristjánsson sem kom í ræðustól og hélt ræðu sem ég er búinn að heyra áður frá honum og gengur út á það að okkur hafi mistekist að stjórna fiskveiðum. Síðan fer hann í ræðu sinni út í það að lýsa því að allar tillögur annarra séu tóm vitleysa, allar tillögur um innköllun veiðiheimilda séu tóm vitleysa. Við verðum bara að gera eitthvað annað. Hann segir okkur ekki hvað eigi að gera, en að það eigi að hætta núverandi stefnu. Hann hefur ekki útskýrt hvernig hann ætli þá að leggja af það eignarhald á veiðiheimildum sem er núna við lýði og hlýtur að þurfa að leggjast af ef það á að stjórna fiskveiðum öðruvísi en nú. Ég tel að hv. þm. skuldi þinginu skýringar á því hvernig hann ætlar sér að kollvarpa því kerfi sem er án þess að fara fyrningarleið og fara inn á annað fiskveiðistjórnarkerfi. Hann þarf að skýra það í umræðum á hv. Alþingi. Ég tel að full ástæða sé til þess að gera þá kröfu og ég efast ekkert um að hv. þm. muni gera það. Hann er prýðilega skynsamur maður og kann að koma fyrir sig orði og hlýtur að geta útskýrt fyrir okkur hinum hér hvaða leið hann vill fara.

Svo er einn enn hv. þm., hv. þm. Halldór Blöndal. Hann hefur oft tekið þátt í umræðum um þessi mál. Ég sakna þess að hann komi ekki hér til umræðunnar. Hann hefur marglýst því yfir að hann telji það hina mestu fásinnu að koma á slíku gjaldi sem hér til umræðu. Hann hefur setið hljóður undir þeirri umræðu sem hefur verið hér og ekki sagt eitt einasta orð. Hann hlýtur að koma og lýsa því yfir, hæstv. forseti, hvort hann styðji þetta mál eða hvort hann sé á móti því. Það verður býsna fróðlegt að vita það því að hv. þm. á ekki lítið undir sér, sjálfur forseti Alþingis. Ég held að það þurfi mikla umræðu um þetta mál. Menn þurfa að koma hér og útskýra sína afstöðu. Það er mikil ástæða til þess vegna þess að í nefndinni sem á að fjalla um málið er ætlunin að ræða málið út frá ýmsum sjónarmiðum. Talað hefur verið um að hæstv. ráðherra ætti mikið verk fyrir höndum við að sætta menn. Sætta við hvað? Hvaða breytingar eru þetta sem þarf að gera? Þessar breytingar hafa ekki komið fram í umræðum á milli manna í umræðunni sem fer fram núna.

Mér finnst ástæða til þess að menn geti ætlast til þess að fá að heyra um hvað málið eigi að snúast. (Gripið fram í: Eru þeir á móti?) Eru menn á móti? Eru menn með eða ætla menn að styðja ef eitthvað gerist og hvað þarf til þess að hv. þingmenn muni styðja þetta? Eða verður það kannski alls ekki þannig að þeir styðji það og fá þeir kannski aðra í lið með sér? Hefur ríkisstjórnin í meiri hluta fyrir þessu máli? (Gripið fram í.) Umræðan sem við höfum fylgst með fram að þessu bendir ekki til þess.