Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 14:24:36 (5556)

2002-03-05 14:24:36# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[14:24]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Ég bið forláts ef ég hef verið að gera mönnum rangt til með því að útnefna hv. þm. Jóhann Ársælsson talsmann Samfylkingarinnar. Ég skal ekkert vera að gera upp á milli þingmanna í því efni. Hins vegar var svar hans mjög skýrt. Hann er ekkert að gera sérstakan ágreining um upphæð gjaldsins. Hann er sammála því að leggja eigi á veiðileyfagjald og hann er ekkert að gera sérstakar athugasemdir við upphæðina. Hann vill hins vegar að gjaldið sé lagt á á einhvern annan hátt og að upphæðin ákvarðist öðruvísi. Hann tók sér orðið sanngirni í munn þannig að mér finnst ekkert sérstaklega mikil ósanngirni í því sem hann hefur þá verið að segja. Við erum sammála um nokkur mjög mikilsverð atriði hvað þetta varðar.

Herra forseti. Hins vegar lýsti annar þingmaður Samfylkingarinnar, hv. þm. Gísli Einarsson, því yfir hér í gær að hann teldi að gjaldið ætti að vera hærra. Ég skal ekki gera mikið úr því.

En þar sem hv. þm. Jóhann Ársælsson spurði hver væri talsmaður Sjálfstfl. í sjávarútvegsmálum þá er ég talsmaður Sjálfstfl. í sjávarútvegsmálum og jafnframt talsmaður ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegsmálum sem sjútvrh., ef hv. þm. hefur ekki gert sér grein fyrir því fyrr.