Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 14:25:53 (5557)

2002-03-05 14:25:53# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[14:25]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Þegar skrýtilega er spurt þá getur verið skrýtilega svarað á móti. Það er kannski meiri ástæða til þess að efast um að fullt hús sé á bak við stefnu ráðherrans en okkar í Samfylkingunni.

Það sem ég ætla að segja um þetta gjald og það sem ráðherrann er að tala um í sambandi við það að við séum sammála um að leggja megi gjald á, er að auðvitað er reginmunur á hugmyndum okkar um hvernig eigi að hafa aðganginn að þessari auðlind og því sem hér er og hefur verið lýði og menn ætla sér að halda áfram að hafa. Við viljum mynda jafnræði til þess að nýta þessa auðlind og höfum lagt fram tillögur okkar um hvernig eigi að gera það. En hér fara menn fram með það að halda áfram að mismuna mönnum eins og hefur verið gert í gegnum tíðina og eru að reyna að festa það í sessi með þessu frv. hérna. Þeir eru í raun og veru að svíkja loforðin frá því fyrir síðustu kosningar um að koma á einhverri sátt um þessi málefni.