Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 14:33:08 (5562)

2002-03-05 14:33:08# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[14:33]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt að taka fram, vegna ummæla síðasta ræðumanns, að ég kom seint til leiks í gær. Þess vegna er ekki komið að mér í umræðunum. Ég fæ minn rétt til að tala rétt á eftir. Þá skulum við fara yfir það sem ég hef þó verið að tala um allt síðan 1984 þegar þessi umræða hófst. Ég lét þá þegar í ljós miklar efasemdir um að aflakvótakerfið væri rétta aðferðin til að stjórna bolfiskveiðunum.

En vegna ummæla hv. þm. og þeirra ræðuhalda sem hér hafa verið hlýt ég að spyrja enn og aftur: Telur hann að þetta veiðigjald sem lagt er til í frv. að sett verði á og ég er á móti --- það liggur fyrir skjalfest að ég er á móti því og hefur ekki frést af öðrum úr Sjálfstfl. sem er sama sinnis, svo að ég taki það fram og það sé alveg skýrt --- eigi að koma og telur hann eins og hv. þm. Gísli S. Einarsson að það sé ekki nógu hátt? Telur hann að það eigi að hækka það, eins og samflokksmaður hans lagði til í gær?

Telur hann líka að einhverjir aðrir geti borgað þetta gjald, verði frv. að lögum eins og hér er gert ráð fyrir, en þeir sem vinna í þessari atvinnugrein, sjómenn og verkamenn? Bætist það ekki ofan á annan kostnað? Telur hann það til styrktar byggðunum eða hvað? Er það hans meining? Ég er að reyna að skilja hvað menn eiga við með þessu, að vilja íþyngja sjávarútveginum með þessu gjaldi. Hverjir í ósköpunum geta borgað það aðrir en starfsmenn sjávarútvegsins? Hvernig stendur á því, herra forseti, að menn sjá ekki í gegnum þetta? Af hverju á sjávarútvegurinn einn og sér að standa undir einhverjum kostnaði eins og t.d. varðandi Hafrannsóknastofnun? Er þetta óviðkomandi einhverju flibbafólki í Reykjavík? Kemur það ekki stjórnarráðsflibbunum, kennurunum eða heilbrigðisstéttunum eða neinum við? Eru það sjómenn sem eiga að standa undir þessum rannsóknum sérstaklega með þessum sérstaka viðbótarskatti?