Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 14:37:09 (5564)

2002-03-05 14:37:09# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[14:37]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég fékk hálft svar. Hv. þm. telur að gjaldið sé ekki til gagns. Jæja, það var þó aðeins skárra. En hví ætlar hann þá að styðja það og sagði fyrir nokkrum mínútum að það væri kannski sanngjarnt? Hann er þá ósammála samflokksmanni sínum Gísla S. Einarssyni sem taldi að gjaldið væri ekki nógu hátt, það þyrfti að hækka það. Svo sagði hann líka að það væri samstaða í þeim þingflokki um stöðuna. Það virðist aldeilis ekki vera samstaða. (Gripið fram í: Jú, jú.)

Ég spyr að þessu aftur og aftur. Hvernig getur það verið að þetta gjald hafi önnur áhrif á útgerðina en að auka kostnað hennar? Það er enginn sem getur borgað það nema sjómenn. Séu menn að borga í Grindavík 172 þús. kr. á ári, hver einasti íbúi, og eigi að bæta 76 þús. kr. ofan á, er það betra? Er það ekki verra? Hvort er það betra eða verra? Það hlýtur að vera verra. Af hverju eru menn þá ekki á móti þessu veiðigjaldi ef það er verra?