Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 14:38:23 (5565)

2002-03-05 14:38:23# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[14:38]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég veit ekki af hverju hv. þm. er með þessa útúrsnúninga. (EOK: Útúrsnúninga?) Já, útúrsnúninga. Við höfum lýst því yfir að við viljum ekki fara þessa leið. Okkar tillögur liggja hér fyrir. Við höfum tekið þær hér til umræðu og þær eru ekki um að fara þá leið sem hér er á ferðinni. Við erum á móti þessari leið og það liggur fyrir. Hv. þm. hlýtur að hafa hlustað á málflutning okkar, hann hefur verið það mikið í þingsal. Það er óþarfi að snúa út úr því sem sagt er.

Það hefur ekki verið niðurstaða okkar að styðja þetta frv. Hv. þm. hlýtur að hafa verið annars staðar ef hann hefur fengið þá flugu í höfuðið, að meiningin hjá okkur sé að styðja við þetta. Við erum vitaskuld á móti þessu máli. Við höfum bent á aðrar leiðir og viljum að þær séu farnar. Það liggur fyrir í tillögum frá öllum aðilum í stjórnarandstöðunni sem báru fram tillöguna sem hér var til umræðu áðan. Ég veit ekki til þess að það liggi fyrir að einn einasti stjórnarandstöðuþingmaður ætli að styðja þetta. Meiri hluti þeirra sem hafa talað fyrir stjórnarflokkana eru á móti þessu líka, fram að þessu.