Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 14:59:25 (5567)

2002-03-05 14:59:25# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[14:59]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason beindi til mín spurningu um hvort farið yrði með veiðigjaldið sem rekstrargjöld hjá útgerðinni. Ég hef gert ráð fyrir því að það yrði gert og þar af leiðandi verði það dregið frá tekjum áður en kemur til þess að hagnaður fyrirtækisins verði skattlagður. Þessari spurningu hefur reyndar verið beint til mín áður í umræðunni og ég hef svarað henni á sama hátt.

Aðeins til þess að glöggva mig á afstöðu hv. þm. til málsins þá hefur mér skilist að Vinstri grænir, flokkur hv. þm., væri fylgjandi því að lagt væri á veiðigjald og það yrði gert samkvæmt einhvers konar fyrningarleið, reyndar með flóknari útfærslum á fyrningarleiðum sem ég hef séð. Mér heyrist á ræðu hv. þm. að hann sé sammála þeirri stefnu og þá muni útgerðin á þeim grundvelli greiða til alls almennings í landinu hluta af auðlindarentunni og greiða meira af þeim kostnaði sem til fellur vegna greinarinnar hjá hinu opinbera, en síðan lýsir hv. þm. yfir andstöðu við hafnalagafrv. Þar lýsir hann yfir andstöðu við það að greinin greiði kostnað sem til fellur vegna útvegsins. Ef ég lýsi afstöðunni rétt og ég bið hv. þm. að leiðrétta mig, herra forseti, ef ég er ekki að gera það, þá er um þversögn að ræða og nauðsynlegt að það sé þá skýrt hvers vegna þversögnin er komin upp eða að ég hafi lýst afstöðu hv. þm. rangt.