Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 15:32:02 (5579)

2002-03-05 15:32:02# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[15:32]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég nefndi þær tölur sem hæstv. ráðherra vitnaði í áðan vegna þess að mér finnst eðlilegt að hv. þingheimur fái að vita hvað hefur verið reiknað út í þessu sambandi og að hvaða niðurstöðum þeir komust sem auðlindanefnd og fleiri hafa treyst til að skoða þessa hluti. Mér finnst sjálfsagt og eðlilegt að þeir skoði þær tölur. Svo kunna menn að semja sig niður á einhverja aðra tölu. Ég hef sjálf talað um 3 milljarða. Mér finnst það eitthvað sem hægt er að horfa á ef menn eru bara að tala um kostnaðargjöld.

Ég vil hins vegar segja, herra forseti, að ef sú leið væri farin sem Samfylkingin leggur til, þ.e. að veiðiheimildir væru innkallaðar í jöfnum áföngum og síðan boðnar út aftur, þá lít ég svo á að kostnaðargjöld gætu verið innifalin í þeim peningum eða þeim fjármunum sem þannig innheimtust. Þá álít ég að menn gætu litið á kostnaðargjöldin sem hluta af greiðslu fyrir aðgang að auðlindinni. En á meðan menn eru að tala um þessa hluti á þann hátt sem hér er lagt til, þá held ég að nauðsynlegt sé að við horfum á það hvernig menn hafa verið að skilgreina þennan kostnað undanfarið og líti til þess einfaldlega vegna þess að ef menn ætla sér að láta gjaldið standa undir kostnaði, eins og segir í greinargerð frv. hæstv. ráðherra, þá hljótum við að tína fram þau gjöld sem áður hafa verið tiltekin sem hluti af þeim kostnaði sem skattgreiðendur nú taka að sér að greiða fyrir útgerðina.