Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 16:00:15 (5586)

2002-03-05 16:00:15# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[16:00]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg öfugt. Að sjálfsögðu er engin formúla til um það. Við verðum bara að hafa eitt að leiðarljósi: Hvernig ætlum við að hámarka nýtinguna af Íslandsmiðum, af bolfiskinum? Við verðum að þoka okkur áfram til að ná þeirri hámörkun, við verðum að átta okkur á því hvernig við umgöngumst náttúruna þannig að hún sé sjálfbær. Við verðum að geta treyst því að fiskstofnarnir verði áfram í þeim mæli sem við vissum að þeir voru langt fram eftir öldinni þegar við gátum veitt yfir 400 þús. tonn af þorski hér á Íslandsmiðum. Þess vegna verðum við að þoka okkur áfram, enginn handhafi þessarar visku er til.

Við höfum hins vegar þá reynslu af núverandi aðferðum okkar og núverandi aðferðum í öllu Norður-Atlantshafi, þar sem menn nota einmitt þessa magnkvóta við bolfiskveiðarnar, að þær skila allar sömu niðurstöðu, við erum að fara niður og aftur niður. Það er mjög margt, eins og ég rakti í máli mínu, sem er óhugnanlegt í þeim tölum. Þess vegna er starfið flókið og erfitt. En við megum ekki gefast upp og segja: Þetta er svo flókið, þetta er svo erfitt, við viljum ekki koma nálægt því. Við eigum einmitt að láta það hugann herða að fara í verkefnið og gera okkur grein fyrir því hvernig við gerum þetta, hvernig við lifum í mestri sátt við þessa náttúru. Það er aðalatriðið.