Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 16:28:49 (5598)

2002-03-05 16:28:49# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[16:28]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Þarna er hv. þm. Halldór Blöndal að gera mér upp orð. Hann sagði að ég væri andstæður sterkum fyrirtækjum. Ég lýsti því í ræðu minni að ég teldi að fyrirtæki sem væri vel stjórnað, bæði til sjós og lands, hvort sem það er stórt eða lítið, ætti ævinlega möguleika og nefndi m.a. Samherja í því sambandi. Ég hef því ævinlega verið þeirrar skoðunar að þeir sem eru útsjónarsamir og duglegir við útgerðarrekstur muni pluma sig í hvaða stýrikerfi sem við búum til.

Mér finnst hins vegar miklu máli skipta að fyrirtækin séu á jafnréttisgrundvelli. Menn þurfa að horfast í augu við það. Það er ekkert launungarmál að þeim fyrirtækjum sem fengu úthlutað kvóta á sínum tíma var veittur ákveðinn forgangur. Mig undrar ef hv. þm. Halldór Blöndal telur það ekki forgang til veiða á Íslandsmiðum að fá úthlutaðan aflakvóta.

Síðan vil ég víkja að því sem hv. þm. vék að um fjárhagslegan aðskilnað veiða og vinnslu. Ég er þeirrar skoðunar að fara eigi fram fjárhagslegur aðskilnaður veiða og vinnslu. Ég ætla að upplýsa hv. þm. Halldór Blöndal um að ég starfaði lengst af hjá fyrirtæki í Hnífsdal þar sem veiðar og vinnsla voru aðskildar. Þetta voru tvö fyrirtæki, þ.e. útgerðarfyrirtæki sem hét Miðfell og síðan Hraðfrystihúsið í Hnífsdal, tvö aðskilin fyrirtæki með aðskilið bókhald.

Sú tillaga sem ég hef lagt fram er um fjárhagslegan aðskilnað veiða og vinnslu. Ég held að það væri þjóðinni til farsældar ef málum væri þannig fyrir komið.