Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 16:30:46 (5599)

2002-03-05 16:30:46# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[16:30]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Mér þótti sorglegt að heyra það sem hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson sagði hér síðast vegna þess að í þeirri till. til þál. sem hann flytur segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

,,Lögunum verði ætlað að skapa skilyrði fyrir eðlilega verðmyndun á öllum óunnum fiski á markaði, heilbrigðum og gegnsæjum viðskiptaháttum í fiskviðskiptum og koma þannig á eðlilegum samkeppnisskilyrðum á því sviði.``

Svo mörg voru þau orð. Það var ekki á þessum forsendum sem unnið var í Hnífsdal og það veit hv. þm. Ég hélt satt að segja að hann mundi tala um það fyrirtæki sem hann vann svo lengi hjá með réttum hætti, en ekki að vera að snúa út úr fyrir mér með því að gefa í skyn að þar hafi öðruvísi verið staðið að en ég lýsti.

Hv. þm. er með tillögu sinni að leggja til að slík vinnubrögð og slíkt samstarf sem þar var haft um hönd megi ekki ganga í framtíðinni. Það er það sem hv. þm. er að leggja til. Og hann á að vera hreinskilinn og sannur í málflutningi sínum í þessu máli vegna þess að hann telur að hann sé kominn hingað inn á Alþingi einmitt til þess að vera með heiðarlegan málflutning í sjávarútvegsmálum. Þess vegna hlýtur maður að ætlast til þess að svo sé.

Ég vil í annan stað segja að ef við horfum hringinn í kringum landið, þá sjáum við að víða standa sterk fyrirtæki í sjávarútvegi undir nýsköpun í atvinnurekstri. Þegar þessi hv. þm. er að tala fyrir því að hann vilji treysta byggðirnar, þá er hann ekki að hugsa um þær byggðir þar sem þessi sterku sjávarútvegsfyrirtæki eru vegna þess að tillögur hans og málflutningur hans gengur út á það að flytja aflaheimildir frá þessum sterku fyrirtækjum til annarra aðila. Út á það gengur í raun hans málflutningur. Mér finnst að hann eigi að viðurkenna það í orði hér beinlínis að sá sé tilgangur hans með tillöguflutningi sínum.