Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 16:33:03 (5600)

2002-03-05 16:33:03# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[16:33]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það vill svo til að hv. þm. Halldór Blöndal er úr Norðurlandskjördæmi eystra og sækir að stórum hluta stuðning við flokk sinn í það kjördæmi og þar eru tveir hv. þm.

Hv. þm. talar eins og hann viti ekki hvaðan kvótarnir sem eru á Akureyri hafi komið. Ég get upplýst hann um það að Guðbjargarkvótinn í heilu lagi er staðsettur á Akureyri. Og ef hann heldur að núverandi tilflutningur á aflaheimildum hafi ekki haft nein áhrif á byggðirnar, þá veit ég bara ekki í hvaða landi hv. þm. býr eða hvaða hugsun hann hefur.

Ég hef ekki talað gegn því að sterk fyrirtæki mættu starfa í byggðunum. Ég hef einmitt talið að sterk fyrirtæki hafi forskot til þess að starfa í byggðunum. Og ef hv. þm. Halldór Blöndal heldur að útgerð Miðfells hf. sem gerði út Pál Pálsson í áratugi hafi ekki selt fisk á markaði, þá er það algjör misskilningur. Ég hygg einmitt að útgerðin hafi byggt upp stöðu sína með því að selja stóran hluta af afla sínum á markaði, bæði innan lands og þó sérstaklega erlendis, m.a. í gámum.

Það er mikill misskilningur ef hv. þingmenn Sjálfstfl. sem nú eru staddir hér í salnum, Kristján Pálsson og Halldór Blöndal, halda að Hraðfrystihúsið í Hnífsdal hafi verið stóreignafyrirtæki þegar ég hóf þar störf, það er mikill misskilningur.