Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 16:35:13 (5601)

2002-03-05 16:35:13# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., KVM
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[16:35]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Þá er búið að leggja fram frv. sem þjóðin hefur beðið eftir, frv. til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða. Þetta frv. er ávöxtur loforðs sem hæstv. forsrh. gaf rétt fyrir síðustu alþingiskosningar um að skipuð skyldi nefnd í samfélaginu sem átti að vera til að skapa sættir í sjávarútveginum. Hvers vegna þurfti að skipa nefnd um sættir í sjávarútvegi? Það hlýtur að vera vegna þess að það var ekki sátt um sjávarútveginn. Og um hvað var ekki sátt? Hvers vegna sá sjálfur hæstv. forsrh. sig knúinn til að gefa þetta loforð, forsrh. ríkisstjórnar sem var búin að stjórna landinu við þetta fiskveiðistjórnarkerfi og svo allt í einu þegar kemur að kosningum þá er farið að ræða um þessi mál, á þeim tíma? Ástæðan fyrir því að skipa þurfti sáttanefnd var sú að byggðir víða um land voru að leggjast af vegna þess að fólkið sem bjó á stöðunum missti möguleikann til að veiða fisk, vegna þess að einn og einn aðili á þessum stöðum sem var ábyrgur fyrir útgerð hafði selt aflaheimildirnar burt frá byggðunum án þess að fólkið sem þar bjó, verkafólk, hásetar, vélstjórar á skipum, stýrimenn og jafnvel skipstjórar, hefði nokkuð um það að segja og það missti vinnuna.

Svo rammt kvað að þessu að jafnvel eitt byggðarlag, þorp sem hafði státað af tveimur togurum og mörgum bátum varð algjörlega kvótalaust, nánast. Og hvað átti til bragðs að taka? Sú staða sem kom upp bæði í þessu þorpi og víðar var mjög gagnrýnd, og einnig að það kerfi skyldi hafa verið sett á að þeir sem höfðu fengið aflaheimildir gátu leigt öðrum til að veiða. Þetta var helsta gagnrýnin að mínu viti, herra forseti. En sáttanefndin, að því er ég best skildi þetta allt saman, var sett á laggirnar til að koma inn í þá stöðu með einhver orð sem breyttu ástandinu. Hér er niðurstaðan komin og í raun og veru er um harla litlar breytingar að ræða þegar upp er staðið.

Reyndar er talað um að leggja á gjald en í staðinn verða önnur gjöld afnumin. Ég fæ ekki betur skilið þessa umræðu. En ekki er talað um að afnema þann möguleika að þeir sem hafi undir höndum aflaheimildir megi leigja þær öðrum. Sú staða gæti hæglega komið upp. Við getum hugsað okkur svæði eins og Breiðafjörðinn, að þeir sem eru að leggja net sín fyrir fiskinn þar þessa dagana séu að greiða fyrir það fleiri hundruð milljónir króna, tugi milljóna til útgerða sem eru kannski staðsettar á allt öðrum stað á landinu. Og ástæðan fyrir því að hæstv. sjútvrh. og ráðgjafar hans hafa ekki séð sér fært að fara að ráðum LÍÚ og Sjómannasamtakanna um algjöra eða mjög mikla takmörkun á kvótaleigu er náttúrlega sú að það hefði þótt alldapurt ef enginn eða lítill fiskur hefði verið veiddur úr Breiðafirði á vorvertíðinni af því að það væri kannski enginn til að veiða hann, enginn mætti veiða hann af því að ekki væri hægt að leigja hann og að togaraútgerðir hefðu einar haft heimildir til að veiða fiskinn.

Við þekkjum þá tíma úr Íslandssögunni þegar við lesum hana að þeir sem höfðu aðgang og leyfi til að veiða fisk við Íslandsstrendur voru þeir sem höfðu útræði. Það voru stórbændur og kirkjan átti ítök á ýmsum stöðum. Þeir sem máttu veiða voru þessir eigendur. Þetta breyttist. Á tímabili var það svo að hver sem vildi gat róið og stofnað til útgerða. En nú er öldin önnur, nú er þetta að hverfa í gamla farið. Það sem við sjáum líka er að aflaheimildirnar og möguleikarnir til að veiða eru að færast á æ færri hendur.

Við sjáum í frv., herra forseti, að sá möguleiki getur verið fyrir hendi að ein útgerð hafi heimild til að veiða 50% af ýsustofninum við landið og ufsa, karfa og grálúðu. Ég spyr, herra forseti, og beini spurningu minni til flm. frv., hæstv. sjútvrh.: Er sá möguleiki fyrir hendi að ein útgerð geti átt helminginn í þessum fiskstofnum, ýsu, ufsa, karfa og grálúðu og að þetta geti skipst á milli tveggja útgerða í landinu og ef einhverjir aðrir vilja veiða, þá þurfi þeir að fá leyfi hjá þeim og leigja af þeim?

Mér sýnist stefnan vera sú að það eigi að reyna að fækka útgerðum eins og mögulegt er í landinu. Þess vegna eru þessar heimildir rýmkaðar. Með þorskkvótann er það þannig að ein útgerð má eiga 12%. Hér er verið að hækka þetta hlutfall. Er það hagkvæmast, er það kannski álit hæstv. sjútvrh. að það sé bara best að ein útgerð sé í landinu og einn aðili sem eigi? Er það hagkvæmast? Er það hagkvæmni stærðarinnar sem menn eru að einblína á með þessu?

Ég segi, herra forseti, að við erum á mjög háskalegri braut með því að fara slíka leið. Ég vona að menn hugsi vel hvaða afleiðingar það getur haft að aðeins ein útgerð eða tvær, kannski þrjár, sem síðan eru meira og minna tengdar eftir einhverjum ósýnilegum þráðum geti ráðskast með auðlind íslenska samfélagsins.

[16:45]

Herra forseti. Þetta er ekki frv. sem leiðir til sátta. Menn hafa notað orðið stríðshanski frekar í þessu sambandi. Heilu byggðarlögin geta farið í uppnám vegna þessa frv. og þess ástands sem er fyrir hendi í sjávarútveginum í dag og þeirra laga sem gilda. Sú nótt getur komið að hin glæstu fyrirtæki, sem menn hafa verið að tala um hér, t.d. á Eyjafjarðarsvæðinu lendi í rekstrarerfiðleikum eins og gerðist með gott fyrirtæki á Ísafirði sem gerði út Guðbjörgina. Hvað segja menn þá? Ætla þeir að segja að það sé réttlætið? Það er ljóst að heyrast munu ramakvein ef til þess kæmi.

Ég er ekki að óska þess, síður en svo, en ég bendi á, herra forseti, að margt gerist í viðskiptaheiminum og útgerðarheiminum. Við höfum séð útgerðir fara á höfuðið, jafnvel stórar, sterkar og stæðilegar svo ekki hvarflaði að einum einasta manni að yrði. Þá er ég hræddur um að annað hljóð mundi heyrast í sumum hv. þm. Norðurl. e. ef til þessa kæmi.

Herra forseti. Rétt fyrir áramótin voru lög um smábáta samþykkt. Þar var gert ráð fyrir því að nánast allt yrði kvótasett í þeim flokki. Nú er gert ráð fyrir að þeir bátar muni geta stækkað og að þeir megi vera meira en 6 tonn. Það getur verið ágætt. En það dapurlega er að sú skerðing sem átti sér stað með þeim lögum, á ýsuveiði og steinbítsveiði, er þegar farin segja til sín með þeim afleiðingum að fjöldi manna hefur ekki vinnu lengur við að beita og róa eins og var.

Herra forseti. Ég er á þeirri skoðun að byggja þurfi upp þannig sjávarútvegskerfi að sem flestir hafi möguleika til þess að koma að því. Það á ekki að byggja upp þannig kerfi að alltaf færri og færri ráði yfir auðlindinni. Við getum velt fyrir okkur hver séu einkenni þeirra ríkja þar sem grimmd er landlæg og fátækt. Eru ekki einkenni þeirra ríkja þau, herra forseti, að fáir ráða yfir auðlindum þeirra og menntun er ekki almenn? Ég tel það vera hættumerki ef sú staða getur komið upp að örfáir aðilar, örfáir einstaklingar í raun, ráði yfir og hafi alla fiskveiði íslenska samfélagsins undir sínum höndum.

Auðvitað er æskilegast að útgerðirnar séu sem flestar og að sem flestir hafi aðgang og möguleika til að veiða, að sem flestir geti séð möguleika á að stofna til útgerðar, eins og var. Hvar er hugsjónin um hinn sjálfstæða mann sem getur stofnað til útgerðar og farið að róa? Hvaða möguleika hafa menn til þess að stofna til útgerðar og róa á sjóinn? Hvaða möguleiki hefur, við skulum segja, maður sem mundi langa til þess að veiða fisk í Faxaflóanum eða Breiðafirðinum? Hvaða möguleika á hann til að stofna til útgerðar? Hann þarf að kaupa bát og síðan þarf hann að leigja veiðiheimildir af öðrum.

Er ekki skrýtið, herra forseti, að úgerðarfyrirtæki sem á kvóta skuli geta leigt hann frá sér en veiði hann bara ekki sjálft? Hvað veldur því? Eru þá komnar of miklar veiðiheimildir til þeirra fyrirtækja? Vita menn ekki að margir staðir og margar litlar útgerðir eru að greiða hundruð milljóna í veiðileyfagjald, í auðlindagjald, en þó ekki til samfélagsins heldur til annarra útgerða í landinu? Þetta lýsir ójafnræði á milli þeirra.

Það er líka umhugsunarefni í sjálfu sér af hverju einn skuli hafa veiðiheimild en annar ekki, að einn sem var skipstjóri í einhvern tíma, jafnvel skamman tíma, hafi orðið sér úti um veiðiheimild á meðan annar skipstjóri sem veiddi mörgum sinnum meiri fisk á sinni veiðitíð, skuli ekki fá neitt og hafi ekki nokkurn möguleika til þess. Er þetta ekki ójafnræði? Og af hverju er miðað við einn dag eða eitt eða tvö ár frekar en einhver önnur? Þessar spurningar eru náttúrlega alltaf áleitnar þegar við hugsum um sjávarútvegsmálin.

Það sem mér finnst merkilegast í þessu er að fram skuli koma tillögur um þetta, þ.e. að eitt fyrirtæki geti jafnvel verið í þeirri stöðu að það eigi 50% af aflaheimildum þessara stofna, ýsu, ufsans, karfans og grálúðunnar. Það finnst mér alveg með ólíkindum þó að ákvæði séu um að sjávarútvegsfyrirtæki megi þó ekki eiga meira en 12% af heildarverðmæti allra tegundanna. Þetta finnst mér skrýtið og ég skil ekki tilganginn með því að setja þetta í lögin nema þá að það lýsi þeirri hugsjón að aðeins eigi að vera örfá fyrirtæki í sjávarútveginum og að verið sé að reyna að útrýma litla manninum, litlu sjálfstæðu mönnunum, mönnunum sem hafa þrá og löngun til að vera bara með lítil útgerðarfyrirtæki, kannski bara með fjölskyldu sinni, nágrönnum eða vinum. Slík fyrirtæki eru greinilega illa séð miðað við þetta.

Herra forseti. Ég vona að í umfjöllun sjútvn. um þetta frv. verði þetta tekið út og þessar tölur lækkaðar til muna.