Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 17:18:52 (5610)

2002-03-05 17:18:52# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[17:18]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hlustaði á ræðu þingflokksformanns míns í gær með mikilli athygli og þar kom fram hjá honum að þegar farin er þessi svokallaða fyrningarleið, enda er það svo í tillögum okkar, að við erum með þríliðun á því hvernig útdeiling aflaheimilda fer fram á grunni fyrningarinnar. Það er alveg augljóst og það kom fram hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni að það skapar gjaldtöku í sjálfu sér, vegna þess að einn þriðji af þeim aflaheimildum sem eru fyrndar samkvæmt þeim hugmyndum fer á markað, og einn þriðji af aflaheimildunum er byggðatengdur sveitarfélögunum og þeim er í sjálfsvald sett og þau geta ákveðið að setja hann á markað eða endurúthlutað til fyrirtækjanna, það er þeim í lófa lagið. Það er því alveg rétt að við tölum fyrir gjaldtöku sem myndast í krafti þess að verið er að bjóða upp á nýtt fyrndar aflaheimildir og síðan mundu e.t.v. sum sveitarfélögin ákveða að innheimta einhvers konar gjald eða fara uppboðsleið.