Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 17:21:58 (5612)

2002-03-05 17:21:58# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[17:21]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef nú tekið eftir því að hv. þm. meiri hlutans finnst alveg sérstaklega spennandi að stilla öðrum tillögum upp þannig að verið sé að taka frá öðrum. Hv. þm. Halldór Blöndal áttar sig náttúrlega á því að á hverjum degi er verið að taka frá öðrum í krafti markaðarins en ekki með stjórnvaldsaðgerðum, málið snýst því ekki um það.

En trúi maður því að nýjar tillögur hvað varðar stjórn fiskveiða leiði til þess að hægt sé að byggja upp fiskstofnana, þá er það augljóslega þvílíkur ábati fyrir allar þær útgerðir sem eru í gangi á tímabilinu, að það mundi ekki veikja stöðu þeirra heldur styrkja, því útgerðin hefur staðið frammi fyrir því varðandi allar þessar tegundir langflest árin að þurft hefur að draga úr veiðiheimildum, þeir hafa veitt minna. Það hlýtur að vera markmið okkar allra með því að horfa til breytinga á fiskveiðistjórnarkerfinu númer eitt, tvö og þrjú að byggja upp veiðistofnana þannig að sóknin geti aukist og menn geti borið meira úr býtum og menn geti styrkt sig. Það er meginmálið.

En það horfir auðvitað allt öðruvísi við ef menn vilja bara fljóta sofandi að feigðarósi og halda við því ástandi sem að margra mati er að leiða til þess að við förum neðar og neðar hvað afrakstursgetu fiskstofnana varðar. Og þá erum við náttúrlega stödd í allt, allt öðru ljósi og framkallar það ástand sem hv. þm. bendir á. En við erum að leita leiða til þess að sækja fram og fá stofnana upp og það leiðir augljóslega til aukinna sóknarfæra og aukinna möguleika þeirra sem eru í greininni.