Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 17:33:24 (5619)

2002-03-05 17:33:24# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., GE
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[17:33]

Gísli S. Einarsson:

Virðulegur forseti. Vegna orða hv. þm. Árna Steinars Jóhannssonar um að nauðsynlegt sé að byggja upp veiðistofnana vil ég byrja mína ræðu á því að taka undir þau orð. Um er að ræða grundvallaratriði. Það veiðistjórnarkerfi sem við höfum búið við hefur leitt til þess að veiðistofnarnir hafa síminnkað, sérstaklega hafa botnlægar tegundir minnkað. Það er að einhverju leyti vegna kerfisins. Því segi ég: Kerfið er rangt og því þarf að breyta. Ég tek þar með undir orð hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar sem segir að leggja þurfi þetta kerfi af og taka upp nýja hætti. Ég tek einlæglega undir það. En ef menn segja þetta þá verða þeir auðvitað að líka hvað þeir vilja gera.

Í upphafi máls í gær sagði hæstv. sjútvrh. þegar hann mælti fyrir þessu lagafrv. að það ætti sér langan aðdraganda. Það er rétt því frá því lögin nr. 38/1990 voru afgreidd hafa stöðugt aukist deilur um þau. Menn hafa verið að lappa upp á þær gjörðir frá 1990 á liðnum árum. Ég vitna því enn til orða hæstv. ráðherra um tillögu um skipan nefndar til að fjalla um auðlindir til lands og sjávar. Það er mikilvægt að þetta hefur verið undirstrikað af sjálfum hæstv. ráðherra. Ósátt ríkti um fiskveiðistjórnina. Ósáttin hefur farið vaxandi. Það sem verið er að gera með þeim tillögum sem núna liggja fyrir er að enn er verið að auka og bæta stöðu þeirra sem hafa notið mest gjafakvótans og rýra stöðu litla mannsins sem er að reyna að koma undir sig fótunum í útgerð.

Í frv. sem við ræðum hér felst ekki jöfnuður. Í því felst ekki jöfnuður. Þess vegna er ég á móti frv., svo það komi alveg skýrt fram. Við samfylkingarfólk viljum fyrningarleið.

Virðulegur forseti. Ég tel ástæðu til þess að fara yfir fyrningarleiðina. Það hefur margsinnis komið fram hjá fólki úti í samfélaginu að það áttar sig ekki á því hvaða leið þessi fyrningarleið er. Þó svo að allir hér inni á þingi skilji líklega mætavel hvað fyrningarleið er --- líklega --- er ástæða til þess að fara yfir það, virðulegur forseti, eina ferðina enn hver fyrningarleiðin er og, með leyfi forseta, ég ætla að fara hér yfir álitsgerð auðlindanefndar þar sem fyrningaleiðin er skýrð. Það hljóðar svona:

,,Meginatriði þessarar leiðar er fólgið í því að allar aflahlutdeildir fyrnist um fastan hundraðshluta á ári --- þ.e. gangi til ríkisins --- en með því er komið á festu um varanleika hlutdeildanna um leið og umráðaréttur þjóðarinnar yfir auðlindinni er skýrt skilgreindur. Með hinum tímabundna en skýra afnotarétti sem í þessu felst er greitt fyrir því að handhafar aflahlutdeilda geti farið með þær sem óbein eignarréttindi, t.d. varðandi framsal og veðsetningu.``

Virðulegur forseti. Það er sérstök ástæða til að fara með þetta vegna orða hv. þm. Halldórs Blöndals hér í dag þegar hann vitnaði í orð mín frá því í gær. Þetta var nauðsynlegt. Síðan segir í framhaldi:

,,Síðan er gert ráð fyrir því að fyrndar aflahlutdeildir verði seldar jafnóðum aftur á markaði eða á uppboði. Með því fyrirkomulagi að fyrningin sé fastur hundraðshluti allra aflahlutdeilda á hverjum tíma verða þær einsleitar og því allar jafnverðmætar á markaði en það ætti að greiða mjög fyrir viðskiptum. Þegar hinar fyrndu aflahlutdeildir bætast við venjulegt framboð á hlutdeildum ár hvert má telja víst að um verði að ræða mjög virkan markað með aflahlutdeildir, sem mun auka sveigjanleika innan sjávarútvegsins og bæta aðgengi nýrra aðila og vaxtarmöguleika hagkvæmustu fyrirtækjanna.``

Þessu erum við að tala fyrir sem sem höfum verið meðmælt fyrningarleið. Þó að aðeins sé mismunur í skoðunum á útfærslu þá er þetta grundvallaratriði, virðulegur forseti. Fyrir því erum við að tala, en ekki hefur verið hlustað á skoðanir okkar. Frv. formanna stjórnarandstöðuflokkanna hefur ekki einu sinni verið tekið til umræðu, hvað þá heldur að nokkurt tillit sé tekið til þess í því frv. sem hér er verið að ræða.

Svona í lokin held ég að enn sé rétt að velta fyrir sér 12.000 tonna magninu sem ætlað er hæstv. ráðherra til ráðstöfunar til að mæta þörfum einhverra sérstakra. 1.500 tonn af því eru reyndar skilgreind til Byggðastofnunar. En 10.500 tonnin eru til ráðstöfunar hjá hæstv. ráðherra. Því er spurningin, eins og ég kom að í gær: Eru einhverjar vangaveltur um hvernig eigi að nýta þessi 10.500 tonn? Jú, hugmyndin er að þau fái einhver sem er í þörf. Ég spyr, virðulegur forseti: Hverjir þeirra sem í útgerð eru og kvótalitlir þurfa ekki að ná sér í meiri kvóta? Þegar aflahlutdeildir í þorski eru leigðir á 160 kr. kílóið, eins og hv. þm. Kristján Pálsson sagði hér í gær og lýsti því fjálglega hvernig menn hefðu hagnað af því, þá er kannski komið tækifæri fyrir hæstv. ráðherra til þess að spila inn í það kerfi og keyra niður þetta háa verð sem er auðvitað að drepa ýmsar smáútgerðir vegna þess að þær hafa ekki nægar heimildir til þess að veiða.

Ég spyr aftur: Eru það smábátarnir eða eru það vertíðarbátarnir? Ákveðnir útgerðarflokkar eru verr settir en aðrir. Það er staðreynd. Ég hygg, og ég treysti því, að hæstv. sjútvrh. nýti þessa heimild upp á 10.500 tonn til að jafna á milli útgerðarmunstranna. Hæstv. ráðherra sagði í gær að hann væri ekki með ákveðnar hugmyndir þar að lútandi. Ég virði það. En ég verð að treysta því, verði þetta frv. að lögum sem ég vona reyndar að verði ekki, að hann nýti þær heimildir skynsamlega.

Ég velti því hér upp í gær hvert verðmæti aflaheimildanna gæti verið. Það er líklega rúmlega 1 millj. á hvert mannsbarn á Íslandi. Verðmætið er nærri 300 þús. millj. Og hvert er afgjaldið sem stefnt er á að taka? Það er ekki einu sinni svo að það eigi að greiða fyrir þann kostnað sem þjóðin ber sameiginlega að sjálfsögðu og útgerðarmenn þar með, þ.e. það sem það kostar að nýta heimildirnar eða veiðistofnana við landið. Líklega er verið að tala um helming kostnaðar. Ef af þessu verður tel ég að það gjald sé of lágt og ég get ítrekað það hér, líklega ekki nema helmingur af þeim kostnaði sem fylgir nýtingu auðlindarinnar vegna rannsókna, eftirlits, öryggisþjónustu og ýmislegs annars sem ber að veita.

Ástæða til að vitna í ræðu hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar um að réttlæti muni felast í því að veiðiheimildir gangi til þeirra sem greiða fyrir þær samkvæmt markaðslögmáli. Þessi skoðun fer mjög nærri því sem ég tel að unnt yrði að ná sátt um til lengri tíma litið. En þá verður líka að fara að þeim tillögum um fyrningu sem við samfylkingarmenn og aðrir höfum talað fyrir og það þarf að taka upp nýjar aðferðir við úthlutun aflaheimilda. Það mun réttlátast gert með því að bjóða upp aflaheimildirnar eða gefa mönnum samkvæmt fyrningarleiðinni möguleika á sem hagkvæmustu útgerðarmynstri sem kemur allri þjóðinni til góða.