Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 18:06:03 (5623)

2002-03-05 18:06:03# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[18:06]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst það sorglegt að hv. þm. skuli ekki geta gengið leiðina með mér og okkur félögunum í því að styrkja byggðir Eyjafjarðar úr því að mikið er rætt um Eyjafjörð af hans hálfu. Til framtíðar litið er það stórt hagsmunamál byggðanna við Eyjafjörð að þar sé veiðiréttur sem ekki verði frá þeim tekinn og tillögur okkar miðast við það. Útgerðarform eða útgerðarmunstur er ekki aðalatriðið. Allar byggðir við Eyjafjörð hafa upplifað það að búa við mismunandi útgerðarform en stöðugleiki til framtíðar byggir á rétti fólksins sem þar býr til þess að komast í auðlindina og út á það ganga tillögur okkar.

Síðan vil ég spyrja hv. þm. hvort hann sé ekki sammála mér, hann taldi upp fyrirtæki á svæðinu sem hann var svo stoltur af. Ástæðan fyrir því að þau eru stór og sterk á svæðinu að mínu mati er sú að þetta eru fyrirtæki sem byggðu á félagslegum grunni, bæjar eða kaupfélags, og njóta þess enn um sinn.