Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 18:10:48 (5627)

2002-03-05 18:10:48# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[18:10]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel fulla ástæðu til að fara yfir það hvort við séum að umgangast miðin á sem bestan hátt og það gæti vel þýtt það að við teldum ástæðu til að draga úr togveiðum. Við töldum fulla ástæðu til þess þegar við færðum út landhelgina að draga úr togveiðum af því að við töldum að útlendingar væru að beita of mikið af togveiðarfærum í kringum Ísland. Við kölluðum þetta ryksuguskip þá. Við eigum margfalt öflugri skip sem beita togveiðarfærum í kringum landið núna og það er full ástæða fyrir okkur að fara yfir það hvort við séum að ganga of nærri lífríkinu með þessum skipum. Það er ekkert athugavert við það sjónarmið. Það er eitthvað sem í er falin ákveðin ábyrgð.

En mig langar til þess að spyrja af því að hv. þm. hélt hér 20 mínútna ræðu. Hann kom aldrei að því hvort hann styður málið sem er til umræðu. Hann kom aldrei að því, en það væri svolítið nýtt að heyra einhvern stjórnarþingmann annan en hv. þm. Kristján Pálsson koma upp og styðja málið því að hv. þm. Kristján Pálsson er sá eini fyrir utan ráðherrann sem hefur látið svo lítið að mæta í þingsal til að styðja við bakið á ráðherra sínum í þessu máli. Það verður fróðlegt að heyra hvort hv. þm. styður málið vegna þess að svo margar ræðurnar hefur hann flutt þar sem hann hefur lýst yfir fullri andstöðu við það sem nú er verið að ræða hér, þ.e. að setja veiðigjald á útgerðina.