Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 18:12:00 (5628)

2002-03-05 18:12:00# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[18:12]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. byrjaði andsvar sitt með því að reyna að gera lítið úr því að störfum fækkaði við Eyjafjörð þótt togurum fækkaði. Nú hélt ég að hv. þm. vissi það sem er kunnugur sjávarútvegi að nútímalegum frystihúsum verður ekki haldið uppi með því að afla hráefnis með handfærabátum eða línubátum við Eyjafjörð. Ef honum er ekki kunnugt um það, þá er ekkert við því að gera.

Á hinn bóginn vil ég rifja upp og minna hv. þm. á að í upphafi máls míns hafði ég einmitt mörg orð um það að hæstv. sjútvrh. hefði unnið mjög vel að því að leggja fram frv. sem mætti vera til sátta. Ég sagði að auðvitað væru ekki allir ánægðir með frv. og kannski enginn því hér er verið að tala um hvernig skipta skuli verðmætum og í orðum mínum fólst auðvitað fullt traust á vinnubrögð hæstv. sjútvrh. og þeim tillögum sem hann hefur lagt fram.