Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 18:14:10 (5630)

2002-03-05 18:14:10# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[18:14]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það hefur þrásinnis komið fram í máli mínu að ég tel að aflakvótar eigi að ganga kaupum og sölum og ég er þeirrar skoðunar að handhafi aflakvótans eigi að ráða yfir honum og hægt sé að veðsetja hann og honum eigi að vera heimilt að selja hann. Ég tel að þetta sé nauðsynlegt til þess að hér sé hægt að reka sterka útgerð til að þeir sem fyrir henni standa geti horft fram í tímann og byggt sig upp eins og þeir hafa gert.

Nú er þessi hv. þm. auðvitað mjög kunnugur sjávarútvegi. Hann þarf ekki annað en horfa hringinn í kringum landið og bera ástandið saman við það sem það var fyrir 20 árum og sér auðvitað að margt hefur áunnist og sér m.a. að sjávarútvegsfyrirtækin núna leggja mikið af mörkum til hliðar við þá atvinnustarfsemi sem þau beinlínis reka til að efla byggðirnar þar sem þær eru.