Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 18:29:35 (5635)

2002-03-05 18:29:35# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[18:29]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. sjútvrh. á aðild að þeirri ríkisstjórn sem nú situr og fer með ráðuneyti sitt. Þess vegna geri ég ráð fyrir því að í þessari umræðu komi hann fram fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Engar hugmyndir hafa verið uppi um það að festa ákvæði í stjórnarskrá um þjóðareign og það hefur líka endurspeglast í þessari umræðu. Hins vegar hafa flestir, ef ekki allir, lögspekingar sem hafa fjallað um þá stöðu sem nú er uppi fjallað um það hversu mikil óvissa sé í þeim málum er lúta að eignarrétti veiðiheimilda og á hvern hátt með þau skuli farið.

Ég vitnaði til þess í gær í ræðu minni að prófessorarnir, annar reyndar fyrrverandi, Sigurður Líndal, hinn Þorgeir Örlygsson, ítrekuðu það í þeirri vinnu sem fram fór í auðlindanefndinni, í skýrslu sem þeir sendu þangað, að það væri algerlega nauðsynlegt að undirstrika með hvaða hætti þessum málum yrði skipað til frambúðar, og það ætti að styrkja ákvæði 1. gr. sökum þess að hún ein segði svo lítið. Þeir hafa sagt að þróunin, þ.e. ef engar breytingar yrðu, leiddi til þess að smám saman yrði eignarréttur útgerðarmanna viðurkenndur. Af þessum sökum er það einmitt hárrétt hjá hæstv. sjútvrh. að hér er ekki verið að leggja til neinar breytingar. Hér er einmitt verið að leggja til óbreytt ástand. Það var það sem þessir prófessorar sögðu, að óbreytt ástand mundi á endanum leiða til þessarar niðurstöðu. Þess vegna hef ég dregið þær ályktnair sem ég hef greint frá í þessari umræðu.