Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 18:57:31 (5644)

2002-03-05 18:57:31# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[18:57]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi þær spurningar sem hv. þm. Karl V. Matthíasson beinir til mín þá er það sjálfsagt túlkunar\-atriði hvort það heimilt væri að veiða seiði eða smáþorsk til þorskeldis samkvæmt breyttri eða nýrri grein um veiðiheimildir Hafrannsóknastofnunar. En þar sem þetta kemur upp hér þá teldi ég rétt að nefndin fjallaði einfaldlega um það.

Síðan varðandi byggðakvótann. Ef frv. verður samþykkt verður byggðakvótinn orðinn 5.300 tonn og það er nú allumtalsverður byggðakvóti vil ég meina. Ég held að það sé rétt ályktað hjá hv. þm. að vandamál eru líkleg til að koma upp, ekki bara vegna þessa frv. heldur vegna þeirrar þróunar sem nú þegar er í gangi, þ.e. að störfum fækkar í sjávarútvegi og við það koma upp vandamál í minni byggðum. Álagning gjalda á útveginn mun frekar ýta undir slíka þróun heldur en hitt.

Ég held að uppboð á þessum heimildum sé ekki rétta leiðin. Það má vel orða það svo að ég óttist uppboð því að ég held að uppboðin séu til þess fallin að knýja menn til þess að greiða síðustu krónuna til þess að ná í kílóin og þar af leiðandi muni þau ekki lenda á réttum stað.

Varðandi hins vegar kvótaþakið þá er auðvitað alltaf mjög erfitt að setja svona mörk og spurningar eins og hv. þm. velti upp eru auðvitað raunhæfar í því samhengi. En það er verið að reyna að ná þarna málamiðlun á milli ákveðinna sjónarmiða. Þetta varð niðurstaðan hjá endurskoðunarnefndinni. Ég hef út af fyrir sig ekki séð ástæðu til þess að gera neinar breytingar á þessu.