Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 18:59:41 (5645)

2002-03-05 18:59:41# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., KVM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[18:59]

Karl V. Matthíasson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að hafa tekið vel í þær spurningar og vangaveltur sem ég lagði fram áðan í umræðunni og gleðst ég yfir jákvæðu viðhorfi hans til þorskeldis sem ég reynar vissi að hann hafði. Ég sé hér ákveðna möguleika opnast fyrir þá sem eru í þeirri grein og tel að það muni efla og styrkja byggðir landsins og jafnvel verða til þess að rétta hlut okkar nokkuð í sjávarútveginum.

Eins og hæstv. ráðherra sagði áðan er byggðakvótinn nú kominn upp í 5.300 tonn. Upphaflega var hann 1.500. Í raun er þetta nokkuð skuggalegt í mínum huga og þær spurningar vakna hvort ráðherra hafi ekki áhyggjur af því að hér er um 180% aukningu að ræða. Ef svo heldur fram sem horfir þá gæti þessi byggðakvóti verið orðinn 10--15 þús. tonn eftir fjögur, fimm ár. Ég vil hvetja til þess að menn skoði hvaða afleiðingar þessi lagasetning getur haft ef af verður.