Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 19:01:11 (5646)

2002-03-05 19:01:11# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[19:01]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað er það rétt hjá hv. þm. að þróunin í byggðamálunum er að mörgu leyti skuggaleg. Hún er hins vegar ekki að öllu leyti breytingum í sjávarútvegi að kenna. Allra síst er hún kvótakerfinu að kenna því að ef eitthvað er hefur kvótakerfið styrkt fjölmargar byggðir. Ég á hins vegar ekki von á að byggðakvótar verði miklu stærri en þeir verða ef þetta frv. verður að lögum. Ég held að það séu einfaldlega takmörk fyrir því til hve mikilla ráðstafana er hægt að grípa á þessum grundvelli.

Vonandi reynist hins vegar úthlutun á þeim kvóta sem hér um ræðir, eða þessara 5.300 tonna, vel til að hjálpa til við aðlögun að breyttum aðstæðum í hinum veikari byggðum.