Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 19:02:14 (5647)

2002-03-05 19:02:14# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., KVM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[19:02]

Karl V. Matthíasson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. sjútvrh. heldur því fram að kvótakerfið hafi styrkt byggðirnar. Vissulega er hægt að færa það til sanns vegar en ég held því líka fram að það hafi lamað aðrar byggðir. Það er þess vegna sem hæstv. forsrh. Davíð Oddsson lofaði á sínum tíma og stóð við það að skipuð yrði sáttanefnd um sjávarútveginn. Það var einmitt vegna þeirrar miklu röskunar sem átt hafði sér stað, gott ef hæstv. forsrh. var þá ekki ráðherra byggðamála líka. Hann sá að þetta var ekki gott og því var sáttanefndin skipuð. Ég verð að segja það að ég tel að árangur og niðurstaða þeirra starfa sé ekki í samræmi við markmiðin með skipan sáttanefndarinnar.

Að lokum hefði ég glaðst mjög, herra forseti, að sjá ef það hefðu verið heimildir í þessu frv. fyrir litla báta, með vélar 26 hestafla og minni, kvótalausa en með leyfi til að veiða í soðið, þ.e. að þeir mættu veiða 3--4 tonn, þó ekki væri nema fyrir skoðanagjöldum, hafnargjöldum og öðru sem af hlýst. Ég sæi fyrir mér að menn mundu skreppa, t.d. fyrir norðan, út á Pollinn og veiða fáeina fiska í soðið, sálu sinni til hressingar og holdinu líka.