Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 19:16:31 (5651)

2002-03-05 19:16:31# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., KVM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[19:16]

Karl V. Matthíasson (andsvar):

Herra forseti. Já, auðvitað er um allt annað að ræða. Tillögur Samfylkingarinnar og fleiri um fyrningarleiðina byggjast náttúrlega á því að aflaheimildir verði smám saman settar á markað og að allar útgerðir geti boðið í eftir ákveðnum leikreglum. Þær útgerðir sem eru góðar og standa sig vel munu náttúrlega aðlagast þessu og bera góðan hlut frá borði. Hinir sem eru slappir og kunna kannski illa til útgerðar munu ekki gera það.

Sjávarútvegur á Íslandi líður vonandi aldrei undir lok og þó að umhverfi hans verði breytt til hins betra, að mínu mati, með fyrningarleið, þá þýðir það ekki að heilu útgerðirnar muni afleggjast og heilu byggðarlögin. Það hefur verið talað þannig um ágætar tillögur Samfylkingarinnar að ef þær nái fram að ganga muni útgerð afleggjast í landinu. Ég held að þetta sé algjör misskilningur og ég held það ekkert, ég veit það. Þetta er náttúrlega algjör misskilningur. Menn munu leita í að sækja fisk og veiða fisk og þegar það er svona takmarkað, þá verður að nota réttlátar aðferðir til þess.

Ég vil líka taka fram að það er mín skoðun, herra forseti, að þeim sem lagt hafa fram gífurlegt fjármagn til veiðiheimildakaupa verður bætt það á einhvern hátt. Sú umræða hófst mjög fljótlega eftir að kvótakerfið kom á og þegar menn vildu fara að vinda ofan af því.