Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 19:18:38 (5652)

2002-03-05 19:18:38# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[19:18]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Það getur vel verið að það hversu vel menn standa að rekstri útvegsfyrirtækja muni ráða því í einhverjum mæli hverjir gætu eignast heimildirnar í fyrningar- og uppboðskerfi. En ég er hræddur um að staðan í dag og hverjar fasteignirnar eru og hver veðin eru muni ráða mun meira og þá sérstaklega fyrsta kastið, að þeir sem eiga veð í hinum stærri byggðum, sérstaklega á suðvesturhorninu, muni eiga miklu betri möguleika á að kaupa heimildirnar og að það muni einmitt geta orðið til þess að sjávarútvegur leggist af í einhverjum af hinum smærri byggðum úti um landið. Við vitum að margar þeirra standa illa og ef aflaheimildirnar fara niður fyrir eitthvert ákveðið mark, þá eru fyrirtækin ekki lengur rekstrarhæf og það getur haft veruleg áhrif á stöðu þeirra. Þess vegna erum við með byggðakvótann, því við vitum að að einhverju leyti mun svona þróun verða áfram. En ég held að það væri afar misráðið ef við færum að auka á þennan vanda með því að taka heimildirnar af þessum byggðarlögum og bjóða þær upp á uppboði. Við værum hreinlega að leggja það upp að þær legðust af.