Ferðakostnaður foreldra barna á meðferðarstofnunum

Miðvikudaginn 06. mars 2002, kl. 13:42:59 (5656)

2002-03-06 13:42:59# 127. lþ. 89.1 fundur 398. mál: #A ferðakostnaður foreldra barna á meðferðarstofnunum# fsp. (til munnl.) frá félmrh., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 127. lþ.

[13:42]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Þetta er ekki í fyrsta og ekki í annað sinn sem ég tek þátt í umræðum um þetta mál hér á þingi. Sýndur hefur verið mjög mikill skilningur á þessu máli frá fólki úr öllum flokkum nánast og mig undrar að ekkert skuli hafa gerst í þá áttina sem hæstv. ráðherra ýjaði hér að að ekki væru fyrir hendi lagaheimildir og ekki væru fyrir hendi fjárveitingar til að leysa úr þessu máli. Þetta er auðvitað eitthvað sem þarf að taka á vegna þess að ef eitthvað er brýnt í sambandi við meðferð unglinga, þá er það samráð og samvinna við foreldra og það má ekki láta fólk gjalda búsetu í slíkum tilfellum. Það verður að taka frí úr vinnu, það verður að leggja á sig langar ferðir og miklar fjarvistir frá heimilum til að geta tekið þátt í samráði þó að meiri háttar fjárhagsleg áföll lendi ekki á því líka. Mér finnst vera tímabært að á þessu sé tekið.