Fjárhagsstaða sveitarfélaga

Miðvikudaginn 06. mars 2002, kl. 13:59:12 (5663)

2002-03-06 13:59:12# 127. lþ. 89.2 fundur 413. mál: #A fjárhagsstaða sveitarfélaga# fsp. (til munnl.) frá félmrh., KPál
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 127. lþ.

[13:59]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég tók eftir því að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon taldi upp öll þau sveitarfélög sem fengið hefðu bréf frá félmrn. út af fjárhagsmálum og taldi sérstaka ástæðu til að nefna að Reykjavík hefði ekki fengið slíkt bréf. Þar með var búið að setja öll hin sveitarfélögin á einhvern bekk sem væri óvirðulegri en R-listinn væri á í fjármálum sínum. Ég velti því nefnilega fyrir mér þegar ég heyrði þessa upptalningu hjá hv. þm. --- ég hélt fyrst að hann hefði áhyggjur af fjármálum sveitarfélaganna en sá svo að þetta var að sjálfsögðu hápólitísk aðferð til að vekja athygli á R-listanum í Reykjavík. (Gripið fram í: Reyksprengja.)

Ég vil aftur á móti upplýsa að mörg þessara sveitarfélaga sem fengu bréf eiga gríðarlegar eignir sem ekki voru taldar upp eða teknar til greina þegar félmrn. var með þetta til skoðunar. Ég vil t.d. nefna að Reykjanesbær á 3 milljarða í hitaveitunni í eignum sem voru settar inn á reikningana eftir áramót og voru ekki taldar með þrátt fyrir að að þessir 3 milljarðar mundu duga til að greiða upp allar skuldir sveitarfélagsins.