Fjárhagsstaða sveitarfélaga

Miðvikudaginn 06. mars 2002, kl. 14:01:43 (5665)

2002-03-06 14:01:43# 127. lþ. 89.2 fundur 413. mál: #A fjárhagsstaða sveitarfélaga# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 127. lþ.

[14:01]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Hæstv. ráðherra og þingmenn stjórnarliðsins hafa átt það sammerkt hér í athugasemdum sínum að gera lítið úr vandanum. Hv. þm. Kristján Pálsson spýttist hér upp eins og stigið hefði verið ofan á líkþorn hjá íhaldinu þegar það var nefnt í framhjáhlaupi að Reykjavík væri ekki í hópi þeirra stóru kaupstaða sem þarna eru á listanum.

Í öðru lagi vil ég segja að kannski er hlutfall skatttekna sem fara til reksturs málaflokka besti mælikvarðinn á hvað raunverulega er að gerast í fjárhag sveitarfélaganna. Það hlutfall hefur farið hækkandi ár frá ári núna um langt árabil og gerir enn. Aðrir mælikvarðar gefa að mínu mati ekki jafngóða raun við að mæla hallann því að það sem ósköp einfaldlega gerist er að þegar sveitarfélög eru komin að endimörkum skuldsetningarmöguleika sinna þá hætta þau að fjárfesta og þá minnkar í sjálfu sér kannski hallinn þannig mælt.

Hæstv. ráðherra nefnir fólksfækkun sem skýringu. En skýtur þá ekki skökku við að einmitt núna um áramótin féll niður fólksfækkunarframlagið sérstaka sem greitt hefur verið til þeirra sveitarfélaga undanfarin þrjú ár? Í öðru lagi nefndi ráðherra rekstrarkostnað hjá sveitarfélögum sem fá til sín fólk og fjárfestingar hjá þeim. Þar erum við að mæta hinum endanum af herkostnaði byggðaröskunarinnar sem hæstv. ríkisstjórn ætti þá að manna sig upp í að taka á og gera eitthvað gagnvart en ekki væla undan eins og hér er í raun og veru gert.

Ráðherra sleppti því að nefna vanda sveitarfélaganna vegna félagslega íbúðarhúsnæðiskerfisins nema ef vera skyldi að það hefði átt að skiljast þannig þegar hann nefndi sveitarfélög á Vestfjörðum sem eins og kunnugt er voru þvinguð til þess að selja eina verðmætustu eign sína til að greiða upp í þá hít. En engar almennar aðgerðir hafa litið dagsins ljós til að taka á þeim vanda. Það er til skammar hvað dregist hefur úr hófi, herra forseti, að fara í almenna uppstokkun á fjárhagslegum málefnum ríkis og sveitarfélaga.

Auðvitað eiga sveitarfélögin miklar eignir. Skárra væri það nú. En þær eru ekki afsetjanlegar nema í draumaríki frjálshyggjunnar. Ég held því að menn ættu að endurtaka ferðir sínar til Farum í Danmörku og læra betur, þeir sem þangað hafa streymt undanfarin ár, til að kynna sér þá paradís sem þar hefur verið byggð upp í anda nýfrjálshyggjunnar.