Lagning Sundabrautar

Miðvikudaginn 06. mars 2002, kl. 14:30:35 (5675)

2002-03-06 14:30:35# 127. lþ. 89.5 fundur 435. mál: #A lagning Sundabrautar# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 127. lþ.

[14:30]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Rétt er að gera nokkra grein fyrir sögu þessa máls vegna fyrirspurnar hv. þm.

Árið 1984 voru uppi hugmyndir um hliðarveg við Vesturlandsveginn sem lægi upp Korpúlfsstaðaland og yfir Leirvog. Það ár kom Sundabraut fyrst inn í aðalskipulag Reykjavíkur. Vegurinn var teiknaður milli Kleppsspítala og Miklagarðs eins og svokölluð leið I var teiknuð síðar. Veturinn 1994--1995 var Sundabraut tekin í tölu þjóðvega á Alþingi sem þjóðvegur nr. 450. Í vegáætlun 1995--1998 var ákveðin fjárveiting upp á 2 millj. kr. til undirbúnings á árinu 1996. Við endurskoðun vegáætlunar fyrir árin 1997--1998 var 10 millj. kr. fjárveiting til Sundabrautar hvort ár.

Haustið 1995 var myndaður vinnuhópur Vegagerðarinnar og borgarverkfræðings í Reykjavík til þess að annast undirbúning verksins. Að lokinni skilgreiningu verkefnisins var ákveðið að ráða verkfræðistofu til að gera þær for\-athug\-anir sem næstar voru á dagskrá. Næstu mánuðir fóru í gagnasöfnun, áætlunargerð og skipulagningu verkefnisins. Skilgreindir voru þeir kostir sem til greina kæmu varðandi legu og fyrirkomulag. Jafnframt var hafin vinna á sviði jarðtækni, umferðartækni og umhverfismála, þar á meðal líffræði og straummælinga. Þessi vinna var að mestu á hendi aðalráðgjafa en heyrði að hluta beint undir verkefnisstjóra.

Í október 1997 var gefin út áfangaskýrsla, Þverun Kleppsvíkur. Skýrslan var kynnt á fundi með þingmönnum Reykjavíkur og borgarstjórn og endar á þessum orðum:

,,Tillaga aðalráðgjafa er sú að fækka valkostum niður í tvo grunnvalkosti, þ.e. lágbrú á leið III og hábrú á leið I.``

Farið var að þessari tillögu og þessir tveir valkostir skoðaðir betur. Í nóvember 1998 var gefin út áfangaskýrsla 2, tillögur vinnuhóps. Í útdrætti skýrslunnar kemur fram að að öllu samanlögðu leggur vinnuhópurinn það til að leið III verði farin, þ.e. innri leið. Áfangaskýrsla 2 fór til umfjöllunar í nefndum og ráðum Reykjavíkurborgar. Skoðaðir voru nokkrir viðbótarmöguleikar, m.a. jarðgöng frá Gufunesi að Kringlumýrarbraut. Einnig var kannað hvað þriggja hæða gatnamót Sæbrautar og Sundabrautar gætu kostað en þá var umferðin suður Sæbraut tekin í jarðgöng í sveig undir Skeiðarvog og Kleppsmýrarvegur tengdur Sundabraut. Þar með voru allir umferðarstraumar í fríu flæði.

Kostnaðarmunurinn á leið I og III var alltaf um 3 milljarðar kr. Mjög erfitt var að fá fram markverðan mun á umferð um leið I og leið III með þeim umferðarspálíkönum sem notuð voru sem er mjög merkileg niðurstaða út af fyrir sig.

Ákveðið var með samkomulagi milli mín og borgarstjórans í Reykjavík veturinn 1999--2000 að halda verkefninu áfram og undirbúa greinargerð um mat á umhverfisáhrifum. Í greinargerðinni skyldi gera grein fyrir helstu áhrifum hvors kosts fyrir sig en ekki var ætlunin að leggja hana fram fyrr en annar hvor kosturinn yrði valinn. Greinargerð þessi var unnin eins langt og hægt var án þess að ákveðinn kostur væri valinn og þeirri vinnu var lokið um áramótin 2000--2001.

Árið 1999 hófu sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu vinnu við sameiginlegt svæðisskipulag. Lokavinna við svæðisskipulagið stendur nú yfir. Talsverðar breytingar hafa orðið í forsendum Sundabrautar. Helsta breytingin er að uppbygging Álfsness er ekki fyrirhuguð fyrr en eftir 2024 en var áður fyrirhuguð eftir 2010. Niðurstöður ýmissa athugana vegna Sundabrautar hafa verið gefnar út í sérstökum skýrslum.

Í skrá aftast í áfangaskýrslu 2 eru taldar upp 35 skýrslur sem unnar hafa verið fyrir verkefnisstjórnina þannig að af mörgu er að taka. Umfjöllun um legu Sundabrautar hefur að verulegu leyti legið niðri frá því að matsáætlun var gerð í febrúar 2001. Ástæðan er fyrst og fremst vinna við svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins og endurskoðun á umferðarlíkani svæðisins sem fór fram samhliða því. Undirbúningur að greinargerð um mat á umhverfisáhrifum hefur þó verið í gangi enda verður gerð grein fyrir fleiri möguleikum í þeirri greinargerð. Nú liggur endurskoðað umferðarlíkan fyrir og vinna við svæðisskipulagstillöguna er á lokastigi. Ætlunin er að vinnuhópur Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborgar láti fara fram arðsemismat á þeim kostum sem helst hafa komið til greina á forsendum svæðisskipulagstillögunnar en þær forsendur eru talsvert öðruvísi en aðalskipulagið gerði ráð fyrir áður. Ein helsta breytingin er að uppbygging í Álfsnesi er ekki fyrirhuguð fyrr en eftir 2024 eins og fyrr kom fram.

Í öðru lagi er spurt: ,,Er samkomulag í sjónmáli milli samgönguyfirvalda og borgaryfirvalda um þessar framkvæmdir?``

Svar: Borgaryfirvöld hafa frekar horft til svokallaðrar leiðar I, þ.e. ytri leiðarinnar yfir Kleppsvík, en Vegagerðin leiðar III sem er innri leiðin. Verulegur kostnaðarmunur er á þessum leiðum eins og áður sagði og þó er ekki hægt að sjá nema ákaflega lítinn mun á umferðarflæði milli þessara tveggja leiða. Vegagerðin hefur sem sagt lagt áherslu á innri leiðina.

Í þriðja lagi er spurt: ,,Hvað er áætlað að framkvæmdirnar kosti?``

Svarið er: Kostnaður við 1. áfanga leiðar I, þ.e. Sæbraut við Kleppsvík að Hallsvegi, er áætlaður á bilinu 10--13,5 milljarðar kr. en áfangi 1 7--8,5 milljarðar á leið III. Kostnaðurinn við síðari áfangann, þ.e. frá Hallsvegi að Vesturlandsvegi, er áætlaður 7 milljarðar kr. Þessi kostnaður miðast við fjögurra akreina vegi þannig að hér er um mjög mismunandi kostnað að ræða sem er óhjákvæmilegt að taka tillit til að mínu mati þegar valin verður sú leið sem þarna á að byggja upp.