Samstarf við Grænlendinga í flugmálum

Miðvikudaginn 06. mars 2002, kl. 14:42:17 (5679)

2002-03-06 14:42:17# 127. lþ. 89.6 fundur 448. mál: #A samstarf við Grænlendinga í flugmálum# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 127. lþ.

[14:42]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja spurningar fyrir hæstv. samgrh. vegna umræðna sem orðið hafa á Grænlandi og skýrslu sem þar hefur nýlega komið út þar sem sá möguleiki er til skoðunar ásamt með fleiri kostum að gera Keflavíkurflugvöll að eins konar skiptistöð fyrir millilandaflug til og frá Grænlandi. Hér er ekki um nýjar hugmyndir að ræða. Mig rekur minni til þess að a.m.k. tvisvar sinnum áður sl. 10--15 ár hafi þessi sama hugmynd verið á kreiki. Þegar Flugmálastjórn Íslands aðstoðaði Grænlendinga við úttekt á flugmálum í kringum 1990 var sama hugmynd á ferðinni og aftur nokkrum árum síðar þegar Grænlendingar undurbjuggu allmikla framkvæmdaáætlun í flugmálum og uppbyggingu flugvalla á vesturströnd Grænlands. Ástæðan er einfaldlega sú að landfræðilegar aðstæður á Grænlandi eru erfiðar og þar er aðeins um að ræða einn góðan alþjóðlegan millilandaflugvöll, flugvöllinn í Syðri-Straumsfirði eða Kangerlussuaq eins og bærinn mun heita á máli þarlendra. Þar er hins vegar engin byggð og sá flugvöllur er því nánast eingöngu rekinn til þess að safna saman flugi frá þéttbýlisstöðum Grænlands og umskipa því yfir í flugvélar til að fljúga til Kaupmannahafnar. Þar af leiðandi er mjög margt sem bendir til þess að hagstæður kostur gæti verið fyrir Grænlendinga að ná samstarfi við Íslendinga um að Keflavíkurflugvöllur yrði skiptistöð og að reglubundið áætlunarflug væri þaðan til nokkurra fjölmennustu svæða Grænlands, þá einkum og sér í lagi til höfuðborgarinnar Nuuk, til Suður-Grænlands eða Narsarsuaq og mögulega til Diskósvæðisins eða Ilulissat.

Það þarf ekki blöðum um það að fletta, herra forseti, að um stórt sameiginlegt vestnorrænt hagsmunamál gæti orðið að ræða ef samstarf á þessum nótum gæti tekist, og það væri tvímælalaust rétt og skynsamlegt af hálfu Íslendinga að leggja þar nokkuð af mörkum. Það mundi gagnast bæði okkar ferðaþjónustu sem og Grænlendinga, bæta samgöngur almennt á þessu svæði og opna þar heilmikla möguleika báðum aðilum til hagsbóta ef þarna gæti tekist vel til.

Gjarnan mætti líta til þeirra möguleika sem felast í að tengja flug til og frá Færeyjum einnig saman í þessu samhengi, hvort sem það yrði gert með því að færa allt vestnorrænt flug til Keflavíkurflugvallar og tengja það þar eða með öðrum hætti nýta möguleika Reykjavíkurflugvallar eða jafnvel Akureyrar- eða Egilsstaðaflugvalla í þessu sambandi. Ég hef því leyft mér að spyrja hæstv. samgrh.:

1. Hefur ráðherra boðið eða hyggst hann bjóða grænlenskum samgönguyfirvöldum til viðræðna um samstarf í flugmálum í framhaldi af hugmyndum um að gera Keflavíkurflugvöll að skiptistöð fyrir millilandaflug til og frá Grænlandi?

2. Hvaða möguleika sér ráðherra á því að auka vægi Íslands sem tengipunkts samgangna á Norðvestur-Atlantshafssvæðinu og notkun flugvalla eins og á Akureyri, Egilsstöðum og í Keflavík í því sambandi?