Samstarf við Grænlendinga í flugmálum

Miðvikudaginn 06. mars 2002, kl. 14:45:56 (5680)

2002-03-06 14:45:56# 127. lþ. 89.6 fundur 448. mál: #A samstarf við Grænlendinga í flugmálum# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 127. lþ.

[14:45]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon spyr tveggja spurninga:

Fyrst spyr hann: Hefur ráðherra boðið eða hyggst hann bjóða grænlenskum samgönguyfirvöldum til viðræðna um samstarf í flugmálum í framhaldi af hugmyndum um að gera Keflavíkurflugvöll að skiptistöð fyrir millilandaflug til og frá Grænlandi?

Svar mitt er þetta: Að undanförnu hefur samgrn. tekið þátt í viðræðum við grænlensk yfirvöld um samstarf í flugmálum og m.a. um að gera Keflavíkurflugvöll að skiptistöð fyrir millilandaflug til og frá Grænlandi. Í september sl. átti ég ásamt embættismönnum ráðuneytisins og ferðamálastjóra fund í Nuuk með ráðherra ferðamála og samgönguráðherra Grænlands um þessi mál. Þetta mál var einnig rætt við samgönguráðherra Grænlands þegar hann var í heimsókn á Íslandi í febrúarmánuði sl. Ákvörðun um þessi mál liggur hjá grænlenskum yfirvöldum og hafa þau boðið til ráðstefnu á morgun --- það hittist nú svo vel á --- þar sem þessi mál verða til umræðu og verður ráðuneytisstjóri samgrn. mættur þar ásamt fulltrúum íslenskra flugfélaga.

Í annan stað er spurt: Hvaða möguleika sér ráðherra á því að auka vægi Íslands sem tengipunkts samgangna á Norðvestur-Atlantshafssvæðinu og notkun flugvalla eins og á Akureyri, Egilsstöðum og í Keflavík í því sambandi?

Svar mitt er þetta: Á fyrri hluta síðasta árs komu fulltrúar frá samgönguráðuneyti Grænlands og frá Grænlandsflugi til viðræðna um að nota Akureyrarflugvöll sem tengipunkt í flugi milli Danmerkur og Grænlands. Bæði fulltrúar samgrn. og bæjaryfirvöld á Akureyri héldu fundi með þeim. Á fyrrnefndum fundi í Nuuk var þetta mál einnig rætt mjög ítarlega og í framhaldi af þeim fundi var málið sent til Grænlandsflugs sem hefur það til skoðunar og meðferðar af sinni hálfu.

Ég vil af þessu tilefni undirstrika sérstaklega að ég tel að við eigum að leita allra leiða til samstarfs við nágranna okkar Grænlendinga um samgöngumál og þá ekki síst flugið og leita leiða til þess að nýta íslensku flugvellina í því augnamiði að auka umferð hér um og bæta samgöngur til Grænlands héðan um Ísland. Ég tel að þetta skipti afar miklu máli fyrir okkur og sé liður í því að efla ferðaþjónustuna og ekki síst að efla samskiptin milli þessara landa og auðvelda flutninga til og frá Grænlandi með flugi. Ég hef því lagt mjög ríka áherslu á gott samstarf við Grænlendinga í starfi mínu og svo verður áfram.

Rétt er að minna á að við höfum átt í samstarfi við Grænlendinga í þeim tilgangi að bæta flugvallaraðstöðu við bæinn Ittoqqortoormiit þar sem Íslendingar hafa verið að sinna ferðaþjónustu, byggt upp ágæta þjónustu sem hefur verið gerð út frá Akureyri. Þar voru tilteknir fjármunir teknir frá til þess að koma að því máli á sínum tíma. Það er hins vegar í höndum Grænlendinga. En vonandi tekst okkur í góðu samstarfi við yfirvöld á Grænlandi að byggja upp og efla þessar flugsamgöngur. Það er bæði í þágu Íslendinga og Grænlendinga.