Samstarf við Grænlendinga í flugmálum

Miðvikudaginn 06. mars 2002, kl. 14:50:54 (5682)

2002-03-06 14:50:54# 127. lþ. 89.6 fundur 448. mál: #A samstarf við Grænlendinga í flugmálum# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 127. lþ.

[14:50]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir svörin. Ég vil lýsa ánægju minni með þau í öllum aðalatriðum. Það er mjög gott að þessi mál skuli vera komin á rekspöl og vonandi sjá Grænlendingar sér hag í því að ganga þarna til samstarfs við okkur.

Ég vil hiklaust hvetja hæstv. samgrh. til að vera ófeiminn við að bjóða fram af hálfu Íslands verulegan stuðning ef það má verða til þess að smyrja hjólin og koma þessu samstarfi á. Ég tel alveg sjálfgefið við þessar aðstæður að við byðum mjög hagstæð samskipti hvað varðar t.d. lendingargjöld og jafnvel framlög til sameiginlegrar markaðssetningar ferðaþjónustunnar á Vestur-Norðurlöndum ef takast mætti að koma þessum skipulagsbreytingum við báðum þjóðunum til hagsbóta.

Mér er kunnugt um það að grænlenska heimastjórnin t.d. hefur tekið frá mikla fjármuni á þeirra mælikvarða til þess að styrkja áætlunarleiðina Narsarsuaq--Akureyri--Kaupmannahöfn ef af því samstarfi verður. Og ef þeir geta lagt jafnmikið af mörkum og þeir hyggjast gera í þessu sambandi ætti ekki að standa á okkur. Ég er ekki í nokkrum vafa um að þetta gæti verið verulega álitlegur kostur hvað varðar framtíðarmarkaðssetningu Vestur-Norðurlanda sem markaðar á sviði ferðaþjónustu. Þar erum við með sameiginlegu ferðakaupstefnuna og fleiri hluti í gangi. Ég minni reyndar á Færeyjar. Hæstv. ráðherra kom ekki inn á það. En það hefði ótvíræða kosti ef hægt væri að bæta samgöngurnar við Færeyjar einnig og tengja þær eftir atvikum með einhverjum hætti inn í þetta. Ég sé þrátt fyrir allt ekki vænlegri kost en þann að reyna að gera Keflavík að þessari skiptistöð og þessari tengistöð flugsamgangna í norðvestanverðu Atlantshafi. Það hefði mikla kosti. Það kann að valda flugrekendunum einhverjum erfiðleikum, Flugfélagi Íslands, Atlantsflugi eða hverjum sem það nú er. En þetta þyrfti að kanna og ræða við flugrekendurna. Ég vona í öllum bænum að samgrh. sé ekki feiminn við að leita eftir fjárstuðningi hér á Alþingi ef það má verða til þess að liðka fyrir þessu.