Skipun rannsóknarnefndar í málefnum Landssímans og einkavæðingarnefndar

Miðvikudaginn 06. mars 2002, kl. 15:02:22 (5685)

2002-03-06 15:02:22# 127. lþ. 90.1 fundur 554. mál: #A skipun rannsóknarnefndar í málefnum Landssímans og einkavæðingarnefndar# þál., Flm. JóhS
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 127. lþ.

[15:02]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Megintilgangur þessarar tillögu um skipan rannsóknarnefndar sem þingflokkur Samfylkingarinnar flytur er að öll stjórnsýsla stjórnenda Landssímans, einkavæðingarnefndar og valdhafa sem ábyrgð bera á meintum óeðlilegum rekstrar- og viðskiptaháttum og klúðri í einkavæðingu Símans verði rannsökuð. Tilefnið er ærið. Stærstu einkavæðingaráform sögunnar hafa beðið alvarlegt skipbrot og stórskaðað hagsmuni almennings. Ábyrgðin liggur hjá ráðherrum, stjórnendum fyrirtækisins og einkavæðingarnefnd. Sérhver þessara aðila sakar hina með alls konar ásökunum um fjárfestingarmistök, óstjórn, svik og trúnaðarbrest, hagsmunaárekstra og misnotkun á almannafé. Allt er þetta á kostnað almennings og skattborgara. Fólk er reitt. Því er stórlega misboðið og vill að þeir sem misfara með það vald sem þeim er trúað fyrir sæti ábyrgð. Fólk upplifir að aðrar leikreglur gilda um almenning en valdhafana og toppana í þjóðfélaginu.

Langstærsti hluti embættismanna og stjórnenda sem starfa hjá hinu opinbera er heiðvirt fólk. Það líður fyrir það að ekki er tekið af festu og ábyrgð á málum um misbrest á góðum stjórnsýsluháttum því margir líta nú svo á að mikið sé um spillingu og illa meðferð fjármuna í stjórnsýslunni.

Eitt af því gagnrýnisverðasta í öllu símamálinu eru óeðlilegir stjórnhættir sem viðhafðir voru af hæstv. samgrh. vegna ráðningarsamnings við fyrrv. forstjóra. Ekki síður er vítaverður samningur sem ráðherrann gerði við stjórnarformann Símans um ráðgjafarstörf fram hjá stjórn Símans sem ráðuneytið lét svo fyrirtækið greiða. Ráðgjöf stjórnarformannsins vék m.a. að kaupum á 300 millj. kr. hlut í fyrirtæki sem lýst er svo að hafi verið í tómu rugli og sukkað með fé. Hæstv. samgrh. er með þessu athæfi sakaður um meint brot á hlutafélagalögunum sem er afar alvarlegt brot hjá ráðherra. Það er því sérlega ótrúverðugt þegar hæstv. samgrh. segist vera sammála hæstv. forsrh. um að öll stjórnin eigi að víkja hjá Símanum en fráleitt sé að hann sjálfur hafi misfarið með vald sitt.

Spurning sem hæstv. ráðherra þarf að svara er líka þessi: Voru þeim 5% hluthafa sem keypt hafa hlutabréf í fyrirtækinu seld bréfin á fölskum forsendum? Fyrrverandi formaður einkavæðingarnefndar hefur sagt að öll stjórn fyrirtækisins hafi verið í molum eins og áætlunargerð, markaðskannanir og upplýsingakerfi, stjórnin hafi verið veik og að rangar ákvarðanir hafi verið teknar.

Þessi sami maður, Hreinn Loftsson, sem starfaði á ábyrgð forsrh., hafði samt stuttu áður skrifað upp á útboðslýsingu á fyrirtækinu sem segir að allt sé í fullkomlega eðlilegu horfi í fyrirtækinu. Hvers vegna lét hann ekki yfirmann sinn, hæstv. forsrh., vita um óráðsíuna í fyrirtækinu?

Það sætir líka furðu að hæstv. forsrh. hafi yfirleitt talið eðlilegt að í forustu fyrir einkavæðingarnefnd væri maður sem er innherji í fyrirtæki sem er á verðbréfamarkaði. Er ekki hætta á að þar hafi skarast hagsmunir við að vera á sama tíma líka stjórnarformaður í Baugi, Tryggingamiðstöðinni og a.m.k. einu fjárfestingarfyrirtæki? Fróðlegt væri t.d. að vita hvort hæstv. forsrh. sem er í forsæti ráðherranefndar um einkavæðingu hafi tryggt að nefndarmenn í einkavæðingarnefnd væru ekki sjálfir að sýsla með hlutabréf í þeim 25 fyrirtækjum sem hafa verið einkavædd á liðnum árum.

Formaður einkavæðingarnefndar sagði í sjónvarpsþætti í september sl. að Síminn hefði verið 65--70 milljarða virði ári fyrr. Aðspurður hví Síminn hafi ekki verið seldur þá svaraði Hreinn Loftsson, með leyfi forseta:

,,Það var ákveðið að fara ekki af stað vegna þess að þá voru fyrirhuguð útboð annarra fyrirtækja.``

Hreinn Loftsson segir sem sagt að það hafi verið ákveðið af einkavæðingarnefnd að hliðra til fyrir öðrum fyrirtækjum. Vissi ráðherranefnd um einkavæðingu af þessari ákvörðun? Þetta þarf að rannsaka til að komast til botns í því hver beri hina pólitísku ábyrgð á að eign skattborgaranna í fyrirtækinu féll um a.m.k. 30 milljarða kr. Þetta er e.t.v. mesta klúðrið. En ábyrgðarmenn þessa klúðurs hafa verið í því að kenna öllum öðrum um en sjálfum sér, eins og lífeyrissjóðum og bönkum, og tapið var jafnvel skrifað á Framsfl.

Það er líka athyglisvert að hæstv. forsrh. hefur tekið undir hvernig það skarast að hæstv. samgrh. túlkar hlutafélagalögin eins og honum hentar hverju sinni, rýfur öll stjórnsýslutengsl þegar þingmenn spyrja óþægilegra spurninga en tekur sér óeðlileg völd í bága við hlutafélagalög með því að taka ráðningar- og ráðgjafarsamning út úr fyrirtækinu þegar hann þarf að semja um kjör og fríðindi við hollvini Sjálfstfl.

Hæstv. forsrh. hefur líka sagt að hann hafi margoft látið samgrh. heyra það að hann væri ekki ánægður með það hvernig Símanum væri stjórnað. Þetta segir að hæstv. forsrh. hafi vitað um klúðrið sem viðgekkst í fyrirtækinu og kvartað við samgrh., sem gerði hvað? Ekki neitt að sýnt verður. Þetta er ráðherrann sem forsrh. lýsir nú fullu trausti á. Það vekur eftirtekt, herra forseti, svo ekki sé meira sagt. Líka það að hæstv. forsrh., sem er einn þeirra sem rannsóknin á að beinast að, skuli vera fjarverandi þessa umræðu.

Ráðherrar Sjálfstfl., ekki bara einn heldur tveir, koma líka mjög óeðlilega að ráðningu fyrrverandi forstjóra sem hæstv. forsrh. segir að hafi breytt sér í einhvers konar sjóðstjóra í starfi hjá Símanum. Það er líka af og frá að samgrh. geti flúið í það skjól að hann hafi þurft að taka við erfðagóssi frá fyrrv. samgrh., núv. forseta Alþingis, sem hafi lofað forstjórastólnum fyrir kosningar. Ráðherrann ber sjálfur ábyrgð á embættisgerðum sínum en það eru afar sérstæð vinnubrögð að stjórnmálaflokkur lofi mönnum að þeir komist að kjötkötlunum komist þeir til valda.

Skýr ábyrgð í stjórnsýslunni, strangar reglur um meðferð opinberra fjármunma, opin og gegnsæ stjórnsýsla, öflugt og skilvirkt eftirlitskerfi, jafnræði í refsingum við brotum í þjóðfélaginu hver sem á í hlut, þetta eru lykilatriði. Þetta eru leikreglurnar sem við verðum að innleiða í þjóðfélagið. Það er eina leiðin til að endurreisa fyrirtækið og skapa á ný traust milli þess og þjóðarinnar. Út á það gengur sú rannsókn sem hér er lögð til. Það er ekki hægt að þroska ábyrgð í stjórnmálum og stjórnsýsluháttum valdhafanna ef ávallt er slegin skjaldborg af meiri hluta þingsins um þá ráðherra eða þá sem treyst er til trúnaðarverka í stjórnsýslunni og liggja undir ámæli um að misfara með vald sitt. Skipan rannsóknarnefndar er það vald sem stjórnarskráin færir þingmönnum til að rannsaka mál af þessum toga. Það er því vissulega varasamt ef þingmenn gera lítið úr sjálfum sér, þinginu og stjórnarskránni sem beinlínis gerir ráð fyrir að þingmenn rannsaki svona mál sem er í beinu samræmi við það sem þekkist í öðrum þjóðþingum.

Það er t.d. mjög athyglisvert að ráðherrar í Danmörku, sem hafa þurft að víkja á grundvelli sérstakrar rannsóknar á embættisfærslum þeirra, hafi gert það á grundvelli brots á upplýsingaskyldu gagnvart þinginu.

Herra forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til allshn. Þar reynir á þingræðið og lýðræðið að meiri hlutinn setjist ekki á málið heldur verði málið afgreitt úr nefnd og fái hér lýðræðislega meðferð í atkvæðagreiðslu sem fyrst.